Piketty gagnrýnir Verkamannaflokkinn

Franski hagfræðingurinn Thomas Piketty.
Franski hagfræðingurinn Thomas Piketty. AFP

Franski hagfræðingurinn Thomas Piketty, sem starfaði sem efnahagsráðgjafi Jeremys Corbyns, formanns Verkamannaflokksins í Bretlandi, gagnrýnir nú sinn fyrrverandi vinnuveitanda.

Piketty, sem er þekktastur sem höfundur bókarinnar Capital in the Twenty-First Century, gagnrýndi í viðtali við Sky News frammistöðu Verkamannaflokksins í kosningabaráttunni fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um áframhaldandi aðild Bretlands að Evrópusambandinu.

Piketty var hluti af efnahagsráðgjafateyminu en er nú einn af nokkrum hátt settum ráðgjöfum Verkamannaflokksins sem sagt hafa af sér.

Danny Blanchflower, fyrrverandi nefndarmaður í peningastefnunefnd breska seðlabankans, sagði sig einnig úr efnahagsráðgjafanefnd Verkamannaflokksins á dögunum. Hið sama gerði Richard Murphy sem verið hefur einn helsti samstarfsmaður Corbyns.  Murphy, sem undanfarið hefur verið fyrirferðarmikill í baráttunni gegn skattaundanskotum í Bretlandi, skrifaði í grein í The Guardian í vikunni að þeir sem kölluðu eftir breytingum í stjórn Verkamannaflokksins, hefðu sennilega eitthvað til síns máls.

Verkamannaflokkurinn í Bretlandi hefur verið í mikilli upplausn eftir að breska þjóðin samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu að hún vildi ganga úr Evrópusambandinu. Í kjölfarið beindust spjót að formanninum og var lögð fram vantrauststillaga á hann innan þingflokksins, og var hún samþykkt. Corbyn sjálfur telur sig vera lýðræðislega kjörinn, og ætlar ekki að segja af sér sem formaður. Nú hafa yfir 40 helstu skuggaráðherrar og aðrir úr framvarðasveit Verkamannaflokksins á þinginu sagt sig frá stöðum sínum. Alls hvöttu 170 þingmenn flokksins hann til að segja af sér.

Hið sama gerði David Cameron, formaður Íhaldsflokksins og forsætisráðherra. Cameron ætlar sjálfur að segja af sér sem formaður flokksins og forsætisráðherra vegna niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Í fyrirspurnatíma í breska þinginu í vikunni hvatti hann Corbyn til að gera slíkt hið sama. 

Sjá frétt mbl.is: „Í guðs bænum, farðu!“

Sjá frétt The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert