Hver er Francois Fillon?

François Charles Amand Fillon.
François Charles Amand Fillon. AFP

Þótt François Fillon hafi verið forsætisráðherra Frakklands í forsetatíð Nicolas Sarkozy 2007 til 2012 er hann ekki sérlega þekktur utan landsteinanna. Hver er þessi maður sem var ekki inni í myndinni í keppninni um að hljóta útnefningu mið- og hægrimanna fyrir forsetakosningarnar næsta vor? Hálfum mánuði fyrir prófkjörið var hann í þriðja til fjórða sæti að fylgi en tveimur dögum fyrir það hafði honum skotið upp að hlið þeirra Sarkozy og Alain Juppé, sem var forsætisráðherra í valdatíð Jacques Chiracs.

Sarkozy féll úr leik í fyrri umferðinni og í þeirri seinni lagði Fillon svo Juppé með tveimur þriðju atkvæða, hlaut 66% fylgi. Fjölmiðlar sögðu að Fillon-flaugin hefði skotist á loft en á sama tíma ýti sósíalistar á sjálfseyðingarhnapp sinn.

AFP

Í sigurræðu sinni sagði Fillon kjósendur hafa ákveðið að hann væri fulltrúi „franskra gilda sem væru þeim kær“ og sagði það ávísun á hnignun að kjósa vinstriflokkana og gjaldþrot að verja atkvæði sínu á Þjóðfylkingu Marine Le Pen. Svo virðist sem ástæðan fyrir því að hann vann á í lokin og ruddi Sarkozy úr vegi sé sú, að hann hefur verið laus við málsóknir á hendur sér, ólíkt Sarkozy og Juppé.

François Charles Amand Fillon fæddist í kappakstursborginni Le Mans 4. mars 1954 og ólst þar upp. Faðir hans var sýsluskrifari og móðirin af Böskum komin. Hann var kosinn á þing 27 ára gamall fyrir héraðið Sarthe og var þá yngsti þingmaður landsins. Tveimur árum seinna bætti hann við sig bæjarstjórastarfi í heimabæ fjölskyldunnar í Sable-sur-Sarthe. Árin 1993-95 var Fillon menntamálaráðherra Frakklands, ráðherra tæknimála 1995 og fjarskiptaráðherra 1995-1997. Sem atvinnumálaráðherra 2002 til 2004 kom hann í gegn umdeildum umbótum, svo sem sveigjanlegri vinnuviku og hækkun lífeyrisaldurs, en hvort tveggja verður meðal viðfangsefna hans að nýju verði hann kosinn forseti.

Fillon er mikill áhugamaður um sólarhringskappaksturinn sem heimaborg hans er fræg fyrir, sækir hann heim á hverju ári. Þá keppti hann á sínum yngri árum í kappakstri, m.a. í Le Mans.

Fillon talaði afdráttarlaust um það í prófkjörsbaráttunni að draga yrði saman seglin í rekstri hins opinbera. Í því sambandi nefndi hann Margaret Thatcher sem leiðtoga sem reist hefði land sitt við úr rústum stjórnarfars vinstri manna, en hann dáði bresku járnfrúna. Hann hét að fækka opinberum starfsmönnum um 500.000 á fimm árum en þeir eru 5,4 milljónir. Aðallega með því að ekki verður ráðið í störf sem losna þegar viðkomandi fara á eftirlaun og vinnuvika þeirra sem eftir verða yrði lengd úr 35 stundum í 39 en einungis fengju þeir borgað fyrir 37 stundir. Í ljósi ástandsins og hryðjuverkaógnar verður lög- og öryggisgæsla undanþegin niðurskurði, þvert á móti ætlar Fillon að auka útgjöld til þessa málaflokks um 12 milljarða evra.

François Charles Amand Fillon.
François Charles Amand Fillon. AFP

Hann sagðist einnig ætla að frelsa atvinnulífið úr fjötrum og draga úr völdum stéttarfélaga með því að færa kjaramálin inn í fyrirtækin með vinnustaðasamningum. Þá segist hann stefna að því að fella niður auðlegðarskatt og lækka skatt á fyrirtæki úr 33% í 25%. Aftur á móti boðar hann hækkun virðisaukaskatts um tvö prósentustig.

Fækkun opinberra starfsmanna verður liður í tilraunum Fillon til að lækka útgjöld hins opinbera um sem svarar 100 milljörðum evra árin fimm sem hann sæti að völdum. Ríkisútgjöldin verða dregin saman um þriðjung og sveitarfélaga um 20%. Lágmarks-eftirlaunaaldur ætlar hann að hækka úr 62 árum í 65. Þátttaka almannatrygginga í lækniskostnaði verður takmörkuð við alvarlega og króníska sjúkdóma og annað greiði sjúkratryggingar sem menn kaupi sér sjálfir.

Það er talið hafa hjálpað til að stórauka fylgi Fillon hversu ákveðinn og afdráttarlaus hann var í þrennum kappræðum í sjónvarpi varðandi sambúðina við múslíma og aðlögun þeirra að frönsku samfélagi. Er það mál sem þorri landsmanna hefur áhyggjur af og endurspeglast m.a. í miklu fylgi við Þjóðfylkingu Le Pen. Fillon sagði að múslímar yrðu að taka því sem allir aðrir hefðu sætt sig við áður fyrr, það er að róttækni og ögrun ættu ekkert skjól í Frakklandi. Hafnaði hann fjölmenningarsjónarmiðum og gagnrýndi skólakerfið fyrir að kenna ungu fólki að skammast sín fyrir nýlendustefnu Frakka. Þá sagði hann að halda þyrfti fjölda innflytjenda í „algjöru“ lágmarki og innflytjendur yrðu að samlagast frönsku samfélagi.

Þó að hann hafi greitt atkvæði gegn frumvarpi núverandi ríkisstjórnar er heimilaði hjónaband samkynhneigðra segir Fillon það óraunhæft að uppræta þau lög. Hann vill hins vegar að samkynhneigðum verði ekki leyft að ættleiða börn nema ef dómari kæmist að þeirri niðurstöðu að slíkt væri í þágu hagsmuna barnsins. Þá er hann andvígur því að einhleypar konur og lesbísk pör fái að gangast undir tæknifrjóvgun. Fillon og velsk kona hans, Penelope, eiga fimm börn og sem trúaður kaþólikki kveðst hann andvígur fóstureyðingum en kveðst ekki munu hrófla við lögum er leyfa þær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert