Aldrin laus af sjúkrahúsinu

Buzz Aldrin (t.v.) á sjúkrahúsinu í Christchurch á Nýja-Sjálandi.
Buzz Aldrin (t.v.) á sjúkrahúsinu í Christchurch á Nýja-Sjálandi. AFP

Tunglfarinn Buzz Aldrin er útskrifaður af sjúkrahúsi í Nýja-Sjálandi og er á leið heim til Bandaríkjanna. Aldrin veiktist skyndilega í ferð á suðurpólinn og var fluttur til Nýja-Sjálands fyrir síðustu helgi. Hann minntist jafnframt vinar síns John Glenn sem lést í gær.

Aldrin var sagður hafa fengið einkenni háfjallaveiki og var meðal annars andstuttur eftir að kom með hópi ferðamanna á suðurpólinn 2. desember. Hann var fluttur með flugi til Nýja-Sjálands þar sem hann dvaldi á sjúkrahúsi í viku. Umboðsmaður Aldrin birti mynd af honum í gærkvöldi í flugvélinni á leið heim.

Frétt Mbl.is: Buzz Aldrin á batavegi

„Ég gat ekki eytt eins miklum tíma með vísindamönnunum eins og ég hefði viljað til að ræða um rannsóknir sem þeir eru að gera í tengslum við Mars. Heimsóknin varð endasleppt og ég þurfti að fara eftir tvo tíma. Ég naut virkilega tímans á Suðurskautslandinu og að sjá hvernig lífið á Mars gæti verið,“ sagði Aldrin í yfirlýsingu en hann hefur verið ötull talsmaður mannaðra ferða til reikistjörnunnar Mars.

John Glenn, fyrsti Bandaríkjamaðurinn til þess að komast á braut um jörðu árið 1962, andaðist í gær og minntist Aldrin, sem varð annar maðurinn til að stíga fæti á tunglið sjö árum síðar, vinar síns í yfirlýsingu sem hann birti á vefsíðu sinni.

Frétt Mbl.is: Tunglfari veiktist á suðurpólnum

„Sem ég sit á sjúkrahúsi og heyrði um andlát vinar míns Johns Glenn þá finnst mér ég lánsamur um að vera að jafna mig á mínum eigin veikindum en hryggur að við höfum misst annan frumkvöðul geimsins og átrúnaðargoð heimsbyggðarinnar,“ segir Aldrin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert