93 látnir eftir skjálftann í Mexíkó

Björgunarsveitarmenn að störfum við að ná fólki út úr rústum …
Björgunarsveitarmenn að störfum við að ná fólki út úr rústum byggingar í Mexíkóborg. AFP

93 manns hið minnsta eru látnir eftir að öflugur jarðskjálfti reið yfir Mexíkó í dag. Jarðskjálftinn mæld­ist 7,1 að að því er Reu­ters-frétta­stof­an hef­ur eft­ir banda­rísku jarðfræðistofn­un­inni og hrundi fjöldi bygginga í höfuðborginni er hann reið yfir.

Reuters-fréttastofan hefur eftir Enrique Pena, forseta Mexíkó, að 27 byggingar í höfuðborginni hafi hrunið til grunna, en Mexíkóborg er með stærstu borgum heims. Fyrstu fréttir af manntjóni hafa borist frá þeim svæðum sem næst eru skjálftamiðjunni og hafa yfirvöld staðfest að 93 hið minnsta hafi látist.

32 ár eru í dag frá því að jarðskjálfti upp á 8 varð 5.000 manns að bana og 100.000 byggingar gjöreyðilögðust.

Skjálft­inn varð um 8 km suðaust­ur af Atenc­ingo í Pu­ebla-fylki sem er ná­granna­fylki höfuðborg­ar­inn­ar og á 51 km dýpi.

49 manns hið minnsta létust í skjálftanum og vitað er …
49 manns hið minnsta létust í skjálftanum og vitað er til þess að 27 byggingar hafi hrunið til grunna í Mexíkóborg. AFP

Yfirvöld í Morelos, sem liggur suður af Mexíkóborg segja 42 hafa farist þar í skjálftanum. Þá hafa fregnir einnig borist af manntjóni í Puebla, þar sem 26 eru sagðir látnir, 9 eru sagðir látnir í Mexíkó-fylki og fjórir í höfuðborginni.

Óttast er að tala látinna eigi eftir að hækka frekar.

Þá eru 3,8 milljónir manna án rafmagns.

„Fólk er virkilega hrætt núna,“ sagði Claudia Meneses, sem er tannlæknir í Mexíkóborg. Hún var í vinnunni þegar skjálftans varð vart. „Við ætlum að fara að einni bygginganna sem hrundu og sjá hvort að við getum hjálpað.

Fjölmiðlar í Mexíkó hafa sýnt myndir af háhýsum í Mexíkóborg sem hafa lagst saman. Þá hefur einnig verið sýnt myndbandsupptaka af því þegar hlið á einni bygginga stjórnvalda hrynur út á götuna og vegfarendur fyrir neðan hlaupa æpandi í burtu.

Björgunarsveitir hafa náð einum manni hið minnsta á lífi úr byggingu sem hrundi í Condesa-hverfinu í Mexíkó.

Donald Trump Bandaríkjaforseti tjáði sig um skjálftann á Twitter nú í kvöld. „Guð blessi íbúa Mexíkóborgar. Við erum með ykkur og munum vera til staðar fyrir ykkur,“ sagði í færslu Trump.

Um 20 milljónir manna búa í Mexíkóborg og næsta nágrenni.

Óstaðfestar fregnir hafa borist frá Cuernavaca, borg sem er suður af höfuðborginni, um að fólk sé fast þar í rústum húsa.

„Við komum okkur út eins hratt og við gátum og skildum allt eftir og bara fórum,“ sagði Rosaura Suarez, sem stóð ásamt fjölda annarra íbúa Mexíkóborgar úti á götunum.

Fyrr í dag hafði verið efnt til stórr­ar æf­ing­ar í borg­inni á viðbrögðum við jarðskjálfta. Var það gert í til­efni að því 32 ár eru í dag liðin frá því að skjálfti varð sem mæld­ist 8,0. Þá fór­ust fimm þúsund manns og gríðarleg­ar skemmd­ir urðu í borg­inni.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert