25 teknir af lífi í Bandaríkjunum

AFP

Þrátt fyrir ákall forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, um að beita dauðarefsingum oftar hefur þeim fækkað sem og aftökum. 25 fangar voru teknir af lífi í Bandaríkjunum í ár, sú síðasta fór fram í nótt í Flórída. 

Jose Jimenez, 55 ára, var úrskurðaður látinn klukkan 21:48 að staðartíma, klukkan 2:48 í nótt að íslenskum tíma, í ríkisfangelsinu í Starke. Hann var tekinn af lífi með banvænni lyfjablöndu.

Í október 1992 braust Jimenez inn í íbúð nágrannakonu sinnar í Norður-Miami en hann ætlaði að ræna heimili hennar. Þess í stað stakk hann og barði Phyllis Minas til bana. Hann var dæmdur til dauða fyrir en aftökunni hefur ítrekað verið frestað. 

Aftökur hafa sjaldan verið jafn fáar á einu ári í Bandaríkjunum og nú og enn fjölgar í hópi þeirra ríkja sem banna beitingu dauðarefsinga. Washington varð nýverið 20. ríki Bandaríkjanna til þess að banna dauðarefsingar. Af þeim 30 sem heimila þær eru aðeins átta sem beita þeim.

Flestar eru í Texas en í ár hafa 13 manns verið teknir af lífi þar. Samt hafa þær ekki verið færri þar síðan árið 1991. Það sem af er ári hafa 42 manneskjur verið dæmdar til dauða í Bandaríkjunum en árið 1996 voru dauðadómarnir 315 talsins. 

Trump er aftur á móti fylgjandi því að beita dauðarefsingum oftar. Hann telur að allir þeir sem fremji morð í musterum eða kirkjum eigi skilið að deyja og vísar þar meðal annars til fjöldamorðs í bænahúsi gyðinga í Pittsburgh í október þar sem 11 létust.

Hann telur einnig að þá sem drepi lögreglumenn eigi að dæma til dauða. Eins eigi að beita dauðarefsingu gagnvart eiturlyfjabarónum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert