Faldi sig í þvottahúsinu í 12 tíma

Konu er hjálpað út af hótelinu eftir árásina.
Konu er hjálpað út af hótelinu eftir árásina. AFP

Umsátr­i um hót­el í Naíróbí, höfuðborg Kenýa, sem kostaði 14 manns lífið lauk í morgun. Joseph Boinnet, lögreglustjóri Kenýa, greindi frá því fyrir skemmstu að allir fimm árásarmennirnir hefðu verið drepnir.

„Það voru fimm hryðjuverkamenn og enginn þeirra er enn á lífi,“ hefur AFP-eftir Boinnet. 

Umsátrið um Dustit D-2 hótelið varði í 20 tíma og eru vígamennirnir sagðir hafa tilheyrt Al-Shabaab-samtökunum. 14 létust líkt og áður sagði, en tókst að bjarga 700 manns úr húsaþyrpingunni. Á meðan skothríð hljómaði í húsaþyrpingunni faldi hópur fólks sig þar inni fyrir árásarmönnunum og voru sumir í símasambandi við ættingja meðan á umsátrinu stóð.

AP-fréttastofan segir lögreglu hafa í morgun flutt 50 manns út af hótelinu. Lucy Wanjiru er ein þeirra sem náði að fela sig fyrir árásarmönnunum. Hún ætlaði að flýja þegar árásin hófst, en eftir að hún sá konu skotna faldi hún sig í þvottahúsinu með hópi annarra.

Hún var í sambandi símleiðis við vinkonu sína Cynthiu Kibe. „Ég fylltist hræðslu þegar hún sagði mér að það væri verið að skjóta í nágrenni við sig og varð að halda áfram að segja henni að hjálpin væri á leiðinni, hún væri næstum kominn,“ hefur AP eftir Kibe. „Ég brotnaði þó næstum því þegar hún sagði á einum tímapunkti við mig: „Vertu svo væn að segja við mig að ég komist lifandi út“.“

Á húsaþyrpingunni er auk hótelsins að finna skrifstofur, kaffihús og veitingastaði. Enoch Kibet, sem gerir hreint á einu kaffihúsanna, rétt svo náði að koma sér í skjól fyrir árásina. „Það  voru vaktaskipti í gangi þegar ég heyrði sprenginguna og öskur í fólki,“ segir Kibet í samtali við Al Jazeera.

„Ég trúði því varla að ég væri á lífi. Sprengingin var svo öflug að húsaþyrpingin skalf öll.“

Svissneskur eigandi öryggisfyrirtækis í Naíróbí heyrði af árásinni þar sem hann var staddur í leigubíl og dreif sig á staðinn til að aðstoða. „Aðaldyrnar á hótelinu höfðu verið sprengdar upp og það lá fólk á götunni með sprengjusár,“ hefur Al Jazeera eftir honum.

Ættingjar fórnarlamba árásarinnar standa hér við tómar líkkistur fyrir utan …
Ættingjar fórnarlamba árásarinnar standa hér við tómar líkkistur fyrir utan Chiromo-líkhúsið í Naíróbí. 14 létust í umsátrinu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka