Vantraust á ríkisstjórn May fellt

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, í breska þinginu í kvöld þegar …
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, í breska þinginu í kvöld þegar rætt var um vantrauststillöguna í garð ríkisstjórnar hennar. AFP

Meirihluti þingmanna í neðri deild breska þingsins felldi í kvöld vantrauststillögu á ríkisstjórn Theresu May forsætisráðherra sem Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, lagði fram í gær í kjölfar þess að samningi hennar um fyrirhugaða útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu var hafnað með miklum meirihluta atkvæða þingmanna.

Vantrauststillagan var felld með 325 atkvæðum gegn 306. Hefði tillagan verið samþykkt hefði það að öllum líkindum leitt til nýrra þingkosninga í Bretlandi en síðast var kosið til þings þar í landi 2017. May sagði í kjölfar þess að niðurstaðan lá fyrir að verkefnið fram undan væri að tryggja að útgangan úr Evrópusambandinu yrði að veruleika.

May sagðist ætla að hefja þá vinnu strax í kvöld og að hún vildi bjóða leiðtogum annarra flokka til fundar við sig á næstu dögum til þess að ræða mögulegar leiðir til þess. Corbyn kallaði eftir því að May útilokaði þann möguleika strax að Bretland gengi úr Evrópusambandinu án þess að samið yrði um sérstakan útgöngusamning við sambandið.

Forsætisráðherrann varð ekki við þeirri ósk Corbyns, en margir af þingmönnum Íhaldsflokks hennar og hluti af ráðherrum ríkisstjórnarinnar styðja það að Bretland yfirgefi Evrópusambandið með þeim hætti og styðjist aðeins við reglur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) eftir útgönguna sem fyrirhugað er að eigi sér formlega stað 29. mars.

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, lagði vantrauststillöguna fram. Hér er hann …
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, lagði vantrauststillöguna fram. Hér er hann í breska þinginu þegar tillagan var rædd. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert