Vísa frá máli sem varðar 2,5 milljónir atkvæða

Málið sem rétturinn vísaði frá sneri að 2,5 milljónum atkvæða …
Málið sem rétturinn vísaði frá sneri að 2,5 milljónum atkvæða sem greidd voru með pósti. AFP

Hæsti réttur í Pennsylvaníu hefur vísað frá máli sem myndi hindra að ríkið gæti staðfest niðurstöður forsetakosninganna þar í landi, sem fóru fram fyrir tæpum mánuði síðan.

Málið sneri að um 2,5 milljónum atkvæða greidd voru með pósti, en þingmaðurinn Mike Kelly, sem fer fyrir málsókninni, hefur óskað eftir því að atkvæðin verði dæmd ógild.

Niðurstaða réttarins var einróma, en fram kom að ekki hafi tekist að fullyrða að eitt einasta atkvæði hafi verið greitt eða talið á saknæman hátt. The Guardian greinir frá.

Joe Biden hlaut 80 þúsund fleiri atkvæði en Trump þann …
Joe Biden hlaut 80 þúsund fleiri atkvæði en Trump þann 3. nóvember. AFP

Joe Biden hlaut 80 þúsund fleiri atkvæði en Donald Trump í kosningunum þann 3. nóvember síðastliðinn, en Trump fór með sigur af hólmi í ríkinu árið 2016. Sigur Bidens hefur þó ekki verið staðfestur af stjórnvöldum Pennsylvaníu vegna málsókna Repúblikana, en ríkið hefur verið helsti skotspónn lögfræðiteymis forsetans í kjölfar kosninganna.

Nokkur mál sem gera tilraun til að varpa skugga á niðurstöður kosninganna hafa verið á sveimi meðal lægri dómstóla í ríkinu, en mörgum þeirra hefur þegar verið vísað á brott.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert