Viðurkennir ósigur kjósi kjörmenn Biden

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

Donald Trump, Bandaríkjaforseti, sagðist í kvöld ætla að yfirgefa Hvíta húsið fari svo að meirihluti kjörmanna kjósi Joe Biden næsta forseta Bandaríkjanna. Umræddir kjörmenn koma saman 14. desember nk. og kjósa næsta Bandaríkjaforseta. 

Ummæli Trumps komu skömmu eftir að forsetinn hafði flutt ræðu fyrir bandaríska hermenn. Í kjölfar ræðunnar tók hann við spurningum blaðamanna. Var hann spurður hvort  hann myndi viðurkenna ósigur fari svo að kjörmenn kjósi Biden. Kvað Trump svo vera.

Kosningasvindl

Hann sagði þó að svindl hefði átt sér stað í kosningunum. „Þessar kosningar voru svindl,“ sagði Trump, en hann vildi ekki svara því hvort hann myndi mæta á innsetningarathöfn Joe Bidens.  

Einhverjir repúblikanar hafa velt upp þeirri hugmynd að velja Trump-sinnaða kjörmenn, þvert á úrslit kosninga í viðkomandi ríkjum. Þannig geti þeir látið þá kjósa Trump þvert á úrslitin til að halda Trump í embætti. Slíkt verður þó að teljast afar ólíklegt. 

mbl.is

Bloggað um fréttina