Hættu við hefndarárás

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels.
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels. AFP/Leo Correa

Ísraelsk stjórnvöld íhuguðu hefndarárás á Írani í kjölfar árásar þeirra á Ísrael um liðna helgi en hættu svo við.

Íran beindi 300 drónum og flugskeytum að Ísrael um helgina. Loftvarnakerfi Ísraels komu þó í veg fyrir umfangsmikið tjón. Alls særðust tólf í árásinni en enginn féll.

Ræddi við Biden

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, hefur heitið því að hefna árásarinnar. Leiðtogar víða um heim hafa þó hvatt til stillingar, þar á meðal Joe Biden Bandaríkjaforseti, helsti bandamaður Ísraela.

Ísraelski miðillinn Kan greindi frá því að Netanjahú hefði látið af áformum um hefndarárás eftir að hafa rætt við Biden.

Háttsettur ísraelskur embættismaður ræddi við Kan undir nafnleynd. Hann sagði að Ísraelar myndu eftir sem áður svara árásinni, það yrði þó gert með öðrum hætti en upprunalega var áformað.

ABC greindi einnig frá því að Ísrael hefði skipulagt hefndarárás en síðar látið af þeim áformum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert