Ein stærsta svikamylla Evrópu afhjúpuð

Evrópska löggæslustofnunin Europol fletti ofan af fjölda svikasímavera í aðgerðinni …
Evrópska löggæslustofnunin Europol fletti ofan af fjölda svikasímavera í aðgerðinni Pandóru. AFP

Lögregluaðgerðin Pandóra afhjúpaði í gær það sem er líklega eitt stærsta símasvikaver Evrópu og er grunað um að bera ábyrgð á þúsundum símtala á dag sem hafa það að markmiði að svíkja fé út úr grunlausum svarendum.

Það voru sameinuð lögreglulið Þýskalands, Albaníu, Bosníu, Kósovo, Serbíu og Líbanon sem létu til skarar skríða og réðust til inngöngu í tólf símaver 18. apríl þar sem samtals 21 handtaka fór fram. Frá þessu greinir evrópska löggæslustofnunin Europol í tilkynningu í dag.

Það var Thomas Strobl, innanríkisráðherra þýska fylkisins Baden-Wuerttemberg, sem lét þau orð falla, sem AFP-fréttastofan vitnar í, að líklega væri um eitt stærsta símasvikaver álfunnar að ræða. Segir hann frá því hvernig hringjendur hafi brugðið sér í ýmis líki.

Slys og skelfilegir atburðir

Hafi þeir látist vera nánir ættingjar, bankastarfsfólk, þjónustufulltrúar hingað og þangað eða jafnvel lögreglan og þannig lagt lævís net fyrir svarendur sem oft komu af fjöllum við að heyra svikahrappana segja grafalvarlegri röddu frá slysum eða öðrum skelfingaratburðum sem ávallt kröfðust þess að sá sem gabbaður var gripi til einhverja aðgerða sem í flestum tilfellum snerust um að greiða einhverja upphæð eða láta viðkvæmar bankaupplýsingar í té.

Rannsóknin sem gekk undir nafninu Pandóra hófst í desember þegar gjaldkeri í banka í Baden-Wuerttemberg fylltist grunsemdum yfir hárri peningaupphæð sem viðskiptavinur þar tók út. Hafði gjaldkerinn samband við lögreglu sem tókst að koma í veg fyrir að viðskiptavinurinn afhenti óprúttnum aðilum féð.

Lögregla handtók svikarana og nýtti síma þeirra til að ná til næstu manna fyrir ofan þá og þannig koll af kolli þar til rannsóknin hafði safnað nægu kjöti á beinin til að unnt væri að grípa til aðgerða og ráðast inn í símaverin.

Afstýrðu milljónasvikum

Á annað hundrað þýskir lögreglumenn hlustuðu á hleruð símtöl frá verunum í rauntíma og komust yfir um það bil þrjátíu símtöl samtímis. Varaði lögregla hugsanleg fórnarlömb við og tókst þannig að afstýra fjársvikum sem hugsanlega hefðu kostað mörg þúsund manns um tíu milljónir evra, jafnvirði um eins og hálfs milljarðs íslenskra króna.

Í lögregluaðgerðinni sjálfri, sem sneri að húsleitinni í símaverunum, lagði lögregla hald á reiðufé og önnur verðmæti sem námu um milljón evra auk þess að tryggja sér upplýsingar sem að sögn Europol gætu leitt til þess að fleiri símaver og fleiri svikarar höfnuðu undir smásjá löggæsluyfirvalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert