Sameinuðu þjóðirnar: 80.000 flúið Rafah

Fleiri en 80.000 manns hafa flúið borgina Rafah síðan á mánudaginn samkvæmt upplýsingum Sameinuðu þjóðanna.

Talið er að 1,4 milljónir manna hafi leitað skjóls í borginni eftir að árásir Ísraelsmanna á Gasasvæðið hófust í október. Hafa fleiri en 34.900 Palestínumenn fallið í árásum Ísraelsmanna.

Samkvæmt umfjöllun BBC segjast palestínskir vígahópar beina árásum sínum að ísraelskum hermönnum austan borgarinnar, en ísraelski herinn segir aðgerðir sínar í austurhluta Rafah hnitmiðaðar og einungis beinast gegn ákveðnum skot­mörk­um.

Fleiri en 80.000 manns hafa flúið borgina Rafah síðan á …
Fleiri en 80.000 manns hafa flúið borgina Rafah síðan á mánudaginn. AFP

Fullum sigri einungis náð með yfirtöku Rafah

Sprengjur dynja nú á borginni og skriðdrekar Ísraelsmanna stilla sér upp í röðum í þéttbyggðum hverfum í austurhluta borgarinnar. 

Hafa Ísraelar á síðustu sjö mánuðum, síðan árásirnar hófust, leiðbeint Palestínumönnum að flýja suður í átt að borginni Rafah til að leita skjóls. Segja ísraelsk yfirvöld aftur á móti nú að fullum sigri verði ekki náð án þess að Ísraelar leggi borgina undir sig til að útrýma síðustu Hamas-herfylkingunum sem eftir standi.

Sameinuðu þjóðirnar hafa varað við því að allsherjar innrás í borgina gæti leitt til mannúðarhörmunga og dauða fjölda óbreyttra borgara. 

Ísraelar hafa á síðustu sjö mánuðum biðlað til Palestínumanna að …
Ísraelar hafa á síðustu sjö mánuðum biðlað til Palestínumanna að flýja í átt að borginni Rafah en hafa nú sagt sigri ekki náð án þess að taka yfir borgina. AFP

Geti staðið á eigin fótum ef til þess kemur

Ísrael tók yfir landamærin í Rafah við Egyptaland á mánudaginn. Hafa SÞ varað við því að hjálpar- og eldsneytisbirgðir séu á þrotum. Hefur ísraelski herinn í kjölfarið birt myndband af opnu hliði við landamærin og sagt þau opin, en SÞ segjast hafa áhyggjur af öryggi starfsmanna sem þurfi að keyra þar yfir. 

Ísraelsher hefur gert loftárásir á borgina í dag þrátt fyrir hótanir Joe Biden Bandaríkjaforseta um að Bandaríkin myndu takmarka vopnasendingar til Ísraels ef gerð yrði innrás í Rafah. Hefur herinn engu að síður haldið áfram að færa sig upp á skaftið í Rafah. 

Í kjölfarið sagði forsætisráðherra Ísraels, Benjamín Netanjahú, að Ísrael gæti og myndi standa á eigin fótum ef til þess kæmi.

Særður maður liggur í rústum eftir árás Ísraelsmanna á þriðjudaginn.
Særður maður liggur í rústum eftir árás Ísraelsmanna á þriðjudaginn. AFP
Sprengjur dynja nú á borginni og skriðdrekar Ísraelsmanna stilla sér …
Sprengjur dynja nú á borginni og skriðdrekar Ísraelsmanna stilla sér upp í röðum í þéttbyggðum hverfum í austurhluta borgarinnar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert