Bin Laden lofar að útlista „bestu leiðina til að forðast annað Manhattan“

Bin Laden á myndbandinu sem Al Jazeera sýndi í kvöld.
Bin Laden á myndbandinu sem Al Jazeera sýndi í kvöld. AP

Arabíska sjónvarpsstöðin Al-Jazeera sýndi í kvöld myndband þar sem Osama bin Laden, forsprakki hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda, segir í fyrsta sinn beinum orðum að hann hafi staðið að hryðjuverkunum í Bandaríkjunum 11. september 2001, og lofar jafnfram að útlista „bestu leiðina til að forðast annað Manhattan“.

Þetta eru fyrstu myndir sem sjást af bin Laden í rúmt ár. „Við ákváðum að eyðileggja háhýsi í Bandaríkjunum,“ segir hann yfirvegaður og ákveðinn.

Á myndbandinu gagnrýnir bin Laden George W. Bush Bandaríkjaforseta fyrir að hafa villt um fyrir bandarísku þjóðinni síðan hryðjuverkin voru framin 2001, og nefnir forsetakosningarnar í næstu viku. Bin Laden segir árásirnar í Bandaríkjunum hafa verið gerðar vegna þess að „við erum frjáls þjóð ... og við viljum endurheimta frelsi okkar“.

Bin Laden beinir orðum sínum til bandarísku þjóðarinnar og segir bestu leiðina til að forðast frekari hörmungar sé að reita ekki araba til reiði. „Frjálslyndir hunsa ekki öryggi þeirra, þvert á það sem Bush gerir, sem segir okkur hata frelsið,“ segir bin Laden, og fréttaskýrendur segja að þessi orð megi ef til vill túlka sem stuðningsyfirlýsingu við John Kerry, forsetaframbjóðanda demókrata, og andstæðing Bush.

Á myndunum er bin Laden klæddur hvítri skikkju, með túrban á höfði og les af blaði, standandi fyrir fram brúnan bakgrunn.

Al Jazeera hefur ekki greint frá því hvernig stöðin hafi fengið myndbandið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert