Fundinn sekur um aðild að hryðjuverkaárásunum á Bandaríkin

Imad Eddin Barakat Yarkas var í dag dæmdur í 27 …
Imad Eddin Barakat Yarkas var í dag dæmdur í 27 ára fangelsi á Spáni.

Spænskur dómstóll fann í dag Sýrlendinginn Imad Eddin Barakat Yarkas sekan um aðild að skipulagningu hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin 11. september 2001. Yarkas, sem talinn er vera leiðtogi al-Qaeda hryðjuverkasamtakanna á Spáni, var dæmdur í 27 ára fangelsi. Alls voru 24 menn verið ákærðir fyrir að tengjast al-Qaeda á Spáni og voru kveðnir um dómar yfir þeim í dag. Sex voru sýknaðir en hinir dæmdir í 6-11 ára fangelsi.

Saksóknarar kröfðust þess að Yarkas yrði dæmdur í 74.377 ára fangelsi fyrir aðildina að hryðjuverkaárásunum eða í 25 ára fangelsi fyrir hvern þann 2973 einstakling sem talinn er hafa látið lífið í árásunum á New York og Washington og 12 ár að auki fyrir að vera forvígismaður al-Qaeda.

Sjónvarpsfréttamaðurinn Tayssir Alluni var einnig fundinn sekur um samvinnu við al-Qaeda og dæmdur í 7 ára fangelsi.

Yarkas, sem er 42 ára, er talinn hafa stýrt hópi sem útvegaði fjármagn og búnað vegna hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin. Var hann sakaður um að hafa skipulagt fund í júní 2001 sem Mohammed Atta, leiðtogi hópsins sem gerði árásirnar á Bandaríkin, sat.

Yarkas sagðist vera saklaus af öllum ákærum, sagðist ekkert vita um Osama bin Laden, leiðtoga al-Qaeda og fordæmdi árásirnar á Bandaríkin.

Annar sakborningur, Marokkómaðurinn Driss Chebli, var einnig ákærður fyrir að hafa tekið þátt í að skipuleggja fundinn með Atta. Hann var sýknaður af morðákæru en fundinn sekur um samstarf við hryðjuverkasamtök og dæmdur í 6 ára fangelsi.

Ghasoub al-Abrash Ghalyoun var sýknaður af ákæru um aðild að undirbúningi hryðjuverkanna. Hann tók myndbönd af World Trade Center í New York og fleiri byggingum í Bandaríkjunum þegar hann var á ferð í Bandaríkjunum 1997. Spænski rannsóknardómarinn Baltasar Garzon, sem ákærði mennina 24 árið 2003, sagði að þessum myndböndum hefði verið komið í hendur al-Qaeda og mætti rekja upphaf skipulagningar hryðjuverkaárásanna til þess. Ghalyoun sagði hins vegar við réttarhöldinn að um væri að ræða saklausar myndir sem hann hefði tekið sem ferðamaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert