Apple hyggst fara í mál við íslenska ríkið vegna tolla á iPod

„Við sitjum ekki við sama borð og aðrir sem búa …
„Við sitjum ekki við sama borð og aðrir sem búa í Evrópu,“ segir Bjarni Ákason, framkvæmdastjóri Apple, hvað varðar sölu á iPod tækjum. Reuters

Apple fyrirtækið á Íslandi hyggst fara í mál við íslenska ríkið vegna þeirra tolla sem eru lagðir á iPod mp3-spilara hérlendis. Að sögn Bjarna Ákasonar, framkvæmdastjóra Apple, hafa lögfræðingar fyrirtækisins safnað öllum viðeigandi gögnum og má búast við hreyfingu í málinu á næstunni, jafnvel í janúar að sögn Bjarna.

„Við sitjum ekki við sama borð og aðrir sem búa í Evrópu,“ segir Bjarni varðandi þau vörugjöld sem eru lögð á iPod tækin. Hann segir ekkert annað land í Evrópu leggja slíka tolla á tækin. Við þetta leggst um 35% kostnaður aukalega ofan á innkaupaverðið miðað við það sem gerist í Evrópu, að sögn Bjarna. Aðspurður segir hann íslenska ríkið hafa lítinn áhuga á því að ræða málið frekar.

Bjarni áætlar að Íslendingar hafi keypt um 30.000 iPod tæki í fyrra, þar af um 10.000 frá Apple á Íslandi. Hann segir alla bíða tjón af þessu ekki bara fyrirtækið, heldur líka ríkið og neytendur. Ríkið verði af virðisaukaskattstekjum og þeir neytendur, sem fara til útlanda til þess að kaupa tækið, verði sumir af ábyrgð.

„Þetta er viðsnúningur hjá stjórnvöldum. Hér áður voru menn að ýta undir þessa upplýsingatæknibylgju, og Björn Bjarnason fór þar fremstur í flokki og gerði það mjög vel. Núna er hinsvegar kominn allt annar póll í hæðina. Hvað ætla menn að gera með símana og alla þessa nýju tækni? Þetta er bara hluti af þessari upplýsingatækni,“ segir Bjarni.

Fjallað er um ýmsar raftækjanýjungar í fréttaskýringu á Fréttavef Morgunblaðsins, sem hægt er að lesta með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert