Eiturefnaslys við sundlaugina á Eskifirði

Frá vettvangi slyssins í dag.
Frá vettvangi slyssins í dag. mbl.is/ Helgi Garðarsson

Eiturefnaslys varð í sundlauginni á Eskifirði eftir hádegi og urðu 15-20 fyrir menguninni. Hafa þeir allir verið fluttir á heilsugæslu til skoðunar. Ekki er vitað hversu alvarlega veikt fólkið er, en klórgufur runnu út sem fólkið andaði að sér. Læknahópur og slökkviliðsmenn hafa verið sendir að sundlauginni með eiturefnagalla. Samhæfingastöðin í Reykjavík hefur verið virkjuð til að veita þá aðstoð sem þörf er á.

Lögregla á Eskifirði er að tryggja vettvang. Björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar, TF- Líf, er á leið til Neskaupstaðar og áætlar að lenda þar kl. 16.10. Flugvél gæslunnar, TF-Sýn, leggur brátt af stað með þrjá lækna og þrjá sjúkraflutningamenn innanborðs.

Verið er að útvega mannskap og búnað, s.s. súrefni, til að senda austur með flugi, en samkvæmt upplýsingum frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins eru tíu manns á leið austur með flugi á vegum slökkviliðsins, þar á meðal eiturefnakafarar.

Líklegt þykir að klórgas hafi lekið út. Klórgas getur við innöndun valdið alvarlegum skaða á lungum og öndunarfærum. Við húðsnertingu getur fljótandi klór valdið alvarlegum ætingarsárum og kali. Slettur í augu geta valdið varanlegum sjónskemmdum. Auk þess getur klór í sambandi við brennanleg efni myndað sprengifimar blöndur sem viðhalda bruna og við upphitun geta hylki sem innihalda fljótandi klór sprungið.

Þessar upplýsingar er að finna á vefsvæði vinnueftirlits ríkisins.

Hlúð að veikri stúlku við sundlaugina.
Hlúð að veikri stúlku við sundlaugina. mbl.is/ Helgi Garðarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert