Maður handtekinn vegna mynda af aftöku Saddams

Mynd úr upptökunni, sem tekin var með farsíma.
Mynd úr upptökunni, sem tekin var með farsíma. Reuters

Maður hefur verið handtekinn í tengslum við rannsókn íraskra stjórnvalda á myndum, sem teknar voru af aftöku Saddams Husseins, fyrrum forseta Íraks. Að sögn sjónvarpsstöðvarinnar al Arabiya er maðurinn, sem handtekinn var, grunaður um að hafa tekið myndirnar með farsíma sínum. Um er að ræða embættismann, sem hafði umsjón með aftökunni.

Myndskeiðið hefur vakið mikla athygli og uppnám víða meðal súnní-múslima en þar kom fram að aftakan var mun óvirðulegri en reynt var að sýna á opinberu myndbandi sem birt var. Viðstaddir hæddu m.a. Saddam og gerði að honum hróp.

Munqith al Faroon, saksóknari, sem var viðstaddur aftökuna, sagði að sumir þeirra, sem kölluðu til Saddams hefðu verið verðir, sem stóðu utan við aftökuklefann en ekki grímuklæddu böðlarnir sem framkvæmdu aftökuna.

Al Faroon sagði að tveir háttsettir embættismenn hefðu haft farsíma meðferðis. Hann sagðist ekki þekkja nöfn þeirra en myndu þekkja þá aftur ef hann sæi þá. Hann tók það fram, að hann hefði ekki séð Mowaffak al-Rubaie, öryggisráðgjafa írösku stjórnarinnar, taka myndir en blaðið New York Times fullyrti það í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert