Staðfest að Skaftárhlaupið var úr eystri katlinum

Ketillinn sem hlaupið kom úr er þriðjungur úr rúmkílómetra, 180 …
Ketillinn sem hlaupið kom úr er þriðjungur úr rúmkílómetra, 180 metra djúpur og 1800 metra breiður. mbl.is/RAX

Staðfesting fékkst á því að Skaftárhlaupið, sem hófst á laugardagsmorgun, var úr svonefndum Skaftárkatli hinum eystri í Vatnajökli norðvestur af Grímsvötnum en jarðvísindamenn flugu yfir jökulinn í dag. Að sögn Odds Sigurðssonar, fagstjóra hjá Orkustofnun, var það mikilfengleg sýn að sjá yfir ketilinn en miklar sprungur hafa myndast í ísinn og gætu þær gleypt stærstu hús að sögn Odds. Ketillinn er um þriðjungur úr rúmkílómetra.

Oddur sagði greinilegt, að ekkert hefði farið úr Skaftárkatli vestri að þessu sinni en úr honum hljóp í fyrra.

Oddur sagði að ummerkin á jöklinum væru nokkuð hefðbundin. Það hefði hins vegar óvenjulegt við hlaupið hvað það hófst með miklu offorsi en flóðvatnið sprengdi sér leið upp úr jöklinum nokkurn spöl frá sporðinum.

Þetta er í 42. skipti, sem Vatnamælingar Orkustofnunar mæla hlaup í Skaftá en það fyrsta sem stofnunin fylgdist með, varð árið 1955. Þá hættu hlaupin að fara inn í Langasjó og bárust ótafin út í Skaftá.

Katlarnir tveir, sem Skaftárhlaup koma úr, eru jarðhitasvæði sem bræða jökulinn án afláts en vatnið sleppur ekki burt vegna þess að þar er lægð í yfirborð jökulsins.

Rennslið í Skaftá hefur minnkað mikið frá því hlaupið náði hámarki á sunnudag.

Sprungurnar í jöklinum gætu gleypt heilu húsin.
Sprungurnar í jöklinum gætu gleypt heilu húsin. mbl.is/RAX
Mekkinó Björnsson á flugi yfir eystri katlinum i Vatnajökli.
Mekkinó Björnsson á flugi yfir eystri katlinum i Vatnajökli. mbl.is/RAX
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert