Óljóst með virði Giftar

Gift var stofnað í kringum eignir og skuldir Eignarhaldsfélags Samvinnutrygginga …
Gift var stofnað í kringum eignir og skuldir Eignarhaldsfélags Samvinnutrygginga í fyrra. Árni Sæberg

„Ég get ekki upplýst um það að svo stöddu hversu mikils virði Gift er,“ segir Benedikt Sigurðsson, framkvæmdastjóri Eignarhaldsfélags Samvinnutrygginga, um stöðu Giftar fjárfestingafélags sem stofnað var utan um eignir og skuldir Samvinnutrygginga í fyrra.

Gift hefur orðið fyrir verulegum skakkaföllum vegna bankahrunsins en stærstu eignir félagsins voru í Kaupþingi og fjárfestingafélaginu Exista. Um mitt ár í fyrra var tekin ákvörðun um að slíta félaginu og greiða fyrrverandi tryggingartökum, samtals yfir fimmtíu þúsund manns, út fé Giftar. Þá var eigið fé félagsins um 30 milljarðar króna. Gera má ráð fyrir að sá hlutur hafi minnkað, líklega um meira en 80 prósent.

Að sögn Benedikts er óljóst hvenær vinnu við slit á félaginu lýkur. Kristinn Hallgrímsson hæstaréttarlögmaður stýrir vinnu nefndar sem vinnur að slitum á Gift.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert