Urðu að breyta auðlegðarskatti

Helgi Hjörvar alþingismaður Samfylkingar.
Helgi Hjörvar alþingismaður Samfylkingar. Ómar Óskarsson

Nauðsynlegt reyndist að gera breytingu á auðlegðarskattinum svokallaða þar sem sú útfærsla sem var í frumvarpi fjármálaráðherra var talin tæknilega óframkvæmanleg. Þetta kom fram í máli Helga Hjörvars alþingismanns á Alþingi í kvöld.

Á fundum efnahags- og skattanefndarinnar kom fram mikil gagnrýni á ákvæði um auðlegðarskatt. Fulltrúar endurskoðendafyrirtækjanna bentu á að einstaklinga skorti fullnægjandi forsendur til að meta raunvirði félaga sem þeir eiga eignarhluti í.
„Meiri hlutinn telur rétt, með tilliti til framkominnar gagnrýni, að leggja til breytingar á greininni. Með þeirri tillögu sem hér er sett fram er lagt til að lögaðilum sem eiga hlut í öðrum félögum verði gert að telja þann eignarhlut sinn fram miðað við raunvirði annaðhvort miðað við markaðsvirði ef um félög er að ræða sem skráð eru á opinberum hlutabréfamarkaði eða hlutdeild í skattalegu bókfærðu eigin fé. Með þessari breytingu verður framtal manna bæði einfaldara og réttara enda verður þá búið að taka tillit til raunvirðis eignarhluta félags í öðrum félögum. Mönnum er síðan gert að telja fram eignarhlut sinn í félögum í samræmi við framanritað,“ segir í nefndaráliti stjórnarþingmanna í nefndinni.

Álagning opinberra gjalda á menn fer fram í lok júlí ár hvert en á lögaðila í lok október. Raunvirði eignarhluta í félögum liggur þannig oft ekki fyrir þegar framtalsfresti manna lýkur. Með þeirri nýju útfærslu sem lögð er til getur komið til þess að auðlegðarskattur ákvarðist í álagningu 2013 vegna eignar í árslok 2011.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert