Áskilur sér rétt til breytinga

Guðbjartur Hannesson.
Guðbjartur Hannesson. mbl.is/Ómar

Guðbjartur Hannesson, heilbrigðis- og félagsmálaráðherra, segir að heilbrigðisráðuneytið muni fara heildstætt yfir það hvaða áhrif niðurskurðartillögurnar í fjárlagafrumvarpi næsta árs muni hafa á viðkomandi landssvæði. 

„Í framhaldi af því mun ég hitta framkvæmdastjóra og forstjóra heilbrigðisstofnananna til þess að skoða þessar hugmyndir enn frekar og áskil mér rétt til að koma með tillögur inn í fjárlaganefnd fyrir aðra umræðu um með hvaða hætti væri hugsanlega hægt að gera öðruvísi,“ sagði Guðbjartur sem svaraði fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins.

Siv gagnrýnir það hve tillögur stjórnvalda um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu gangi hratt fram. Hún spurði m.a. hvort það væri ekki rétt að gera þetta hægar.

Guðbjartur segir að það sé mögulega hægt að fara hægar í sakirnar eða með tilfæringum, þ.e. þeir sem hafi fengið hóflegan eða lítinn sem engan niðurskurð taki meira á sig og þannig verði fært til þeirra stofnana sem verði hvað harðast úti í fjárlögum næsta árs.

Hann tekur undir með Siv að það sé æskilegt að horft sé til langs tíma í heilbrigðismálum. Menn hafi skýra framtíðarsýn. Guðbjartur segir að þetta eigi að vera óháð flokkslínum.

„Hún á auðvitað að vera þannig að það sé þjóðarsátt um hana í meginatriðum þannig að menn viti hvert þeir stefna og hvers skuli gæta,“ segir Guðbjartur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert