Sagði ráðherra með dómara í vinnu

Frá Hæstarétti Íslands í morgun þegar áfrýjunarmálin voru dómtekin.
Frá Hæstarétti Íslands í morgun þegar áfrýjunarmálin voru dómtekin. mbl.is/Eggert

Lögmaður Jóhannesar Rúnars Jónssonar í áfrýjunarmáli hans og Ástráðs Haraldssonar gegn íslenska ríkinu vegna skipunar Landsréttardómara sagði það með ólíkindum að dómsmálaráðherra geti haft svigrúm til að ráða því hverjir verði dómarar og hverjir ekki eftir því hvort verið sé að skipa til Landsréttar, Hæstaréttar eða héraðsdóms. Í raun sé ráðherra með dómara í vinnu hjá sér.

„Erum við ekki að reyna að fyrirbyggja geðþótta?“ spurði lögmaðurinn Jóhannes Karl Sveinsson í Hæstarétti í morgun og nefndi að ný lög hefðu verið sett til að draga úr pólitískum afskiptum ráðherra í málum sem þessum með því að koma á nefnd sérfróðra aðila til velja hæfasta umsækjandann.

Smekkur ráðherra hafi gert útslagið

Jón Gunnar Ásbjörnsson, lögmaður Ástráðs í málinu, sagði að smekkur ráðherra hafi ráðið því hver var skipaður dómari við Landsrétt og ekkert liggi fyrir af hverju sumir voru skipaðir dómarar en aðrir ekki.

Til dæmis hafi smekkur ráðherra valdið því að Eiríkur Jónsson, sem var í sjöunda sæti  dómnefndar á lista yfir hæfustu umsækjendurna, var ekki  hluti af vali ráðherra. „Áfrýjandi veit ekkert betur en Eiríkur Jónsson af hverju hann fékk ekki dómarasæti við Landsrétt,“ sagði Jón Gunnar og nefndi að ráðherra hefði átt að framkvæma efnislegt mat og heildstæðan samanburð á umsækjendum.

Einnig sagði hann að áfrýjandi telji að annmarkar hafa verið á málsmeðferð ráðherra þegar hann vék frá umsögn dómnefndar og að hann taki ekki undir það að álit dómnefndar hafi verið haldið annmörkum. Ófullnægjandi rannsókn hafi legið að baki ákvörðun ráðherra um að auka vægi dómarareynslu varðandi skipun dómara.

Ástráður Haraldsson og Jó­hann­es­ Rún­ar Jó­hanns­son­.
Ástráður Haraldsson og Jó­hann­es­ Rún­ar Jó­hanns­son­. Samsett mynd

Ákvörðunarvaldið í höndum Alþingis

Víðir Smári Petersen, lögmaður, talaði fyrir hönd íslenska ríkisins. Hann sagði að áður fyrr hafi ráðherra getað framkvæmt sjálfstæða rannsókn í málum sem þessum frá upphafi til enda en þannig sé það ekki lengur. Í umræddu máli hafi ráðherra aðeins haft ellefu daga til að undirbúa málsmeðferð sína. Öryggisventill umsækjanda sé því aðkoma Alþingis að málinu. Hið raunverulega ákvörðunarvald í málinu hafi verið í höndum þess.

Ef eitthvað hafi valdið Ástráði tjóni hafi það ekki verið ráðherra heldur endanleg og bindandi ákvörðun Alþingis. Ástráður hafi ekki getað vænst þess að verða skipaður dómari við Landsrétt þótt dómnefnd hefði talið hann á meðal fimmtán hæfustu vegna þess að skipun í Landsrétt hafi verið háð meirihlutavilja Alþingis. Þar hafi sjónarmið þingmanna verið mismunandi, meðal annars varðandi jöfn hlutverk kynjanna við dómstólinn.

Ekki sannað að Ástráður sé hæfari

Í máli Víðis Smára kom einnig fram að Ástráði hafi ekki tekist að sanna að hann hafi ótvírætt verið hæfari en hinir fjórir sem ráðherra skipaði í staðinn fyrir þá sem dómnefnd lagði til að yrðu skipaðir. Hann hafi ekki haldið því fram með berum orðum að hann sé hæfari en fjórmenningarnir. Ekki sé heldur móðgandi gagnvart honum „að þetta hæfa fólk“ hafi verið tekið fram yfir hann.

„Ráðherra gerði sínar tillögur vegna þess að hún vildi auka vægi dómarareynslu,“ sagði Víðir Smári og benti á að ásetningur ráðherra hafi verið góður. Tilgangurinn hafi aldrei verið sá að gera lítið úr Ástráði eða ganga erinda annarra. Einnig nefndi hann að áfrýjandi hafi ekki bent á hvað ráðherra hefði átt að rannsaka betur í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka