Grunur um íkveikju í Stardal

Húsin í Stardal eftir eldsvoðann í byrjun janúar.
Húsin í Stardal eftir eldsvoðann í byrjun janúar. mbl.is/Árni Sæberg

Lögregluna grunar að kveikt hafi verið í bænum Stardal í jaðri Mosfellsheiðar í byrjun janúar. Bærinn brann til kaldra kola að morgni laugardagsins 6. janúar. Ekki var föst búseta á bænum og hafði ekki verið í nokkur ár. Fulltrúi eiganda Stardals hafði komið að bænum daginn áður en eldsvoðinn varð. Þá voru ummerki um að brotist hefði verið inn; rúða var brotin og kveikt hafði verið í flugeldum innandyra. 

Að sögn Ásgeirs Péturs Guðmundssonar lögreglufulltrúa var þá allt orðið „kalt“ og engar glæður að sjá. Það er svo ekki fyrr en morguninn eftir að húsið stendur í ljósum logum. „Þannig að við höfum ástæðu til að ætla að þarna sé eitthvað saknæmt í gangi.“

Er slökkvilið kom á vettvang eftir að eld sást leggja frá húsunum í Stardal var fljótt ljóst að þeim yrði ekki bjargað. Gekk starf slökkviliðsmanna því út á það að verja önnur hús og slökkva svo í glæðum. 

Með svipmeiri bændabýlum

Bærinn Stardalur stendur við Þingvallaveg og sáust húsin, hvít með grænu þaki, vel frá veginum með Móskarðshnúka og Skálafell í baksýn.

Jónas Magnússon hóf búskap í Stardal árið 1914. Hann fluttist þó þangað fyrr eða árið 1894  ásamt föður sínum. Í grein í Morgunblaðinu frá árinu 1960 eftir Matthías Johannessen, sem var um tíma í Stardal sem ungur drengur, segir að þegar Jónas tók við búinu hafi Stardalur verið „harðbýl og afskipt fjallajörð með litlum túnum“. Jónas og eiginkona hans, Kristrún Eyvindsdóttir, ræktuðu upp landið og byggðu stórt steinhús á jörðinni árið 1935. „[...] og síðan hefur húsakostur verið aukinn af miklum myndarskap svo nú er Stardalur með svipmeiri bændabýlum á austurleið,“ skrifaði Matthías. Í grein sem hann skrifar árið 1965  hefur hann eftir Jónasi að minnst sé á Stardal í Landnámu. Þar hafi Hallur goðlausi numið land. 

Magnús sonur Jónasar og Kristrúnar tók við búinu árið 1962. Sonur Magnúsar, Þórður, sagði í samtali við mbl.is í kjölfar eldsvoðans að foreldrar hans hefðu flutt frá Stardal fyrir nokkrum árum en að bróðursonur hans hefði haft þar lögheimili. 

Stardalur. Í baksýn er Skálafell. Hvítu húsin með græna þakinu …
Stardalur. Í baksýn er Skálafell. Hvítu húsin með græna þakinu voru einkennandi fyrir bæinn. Ljósmynd/www.mats.is

Magnús Jónasson lést á Eirhömrum í Mosfellsbæ árið 2013. Í æviágripi minningargreina um hann í Morgunblaðinu sagði m.a.: „Magnús var alla sína starfsævi bóndi í Stardal fyrir utan eins vetrar vinnu á tveimur búnaðarskólum í Noregi. Hann var virkur í félagsstörfum og [...] einnig var hann áhugasamur um skógrækt og sat í stjórnum skógræktarfélaga sveitar og sýslu.“

Engin venjuleg húsagerðarlist

Umhverfi Stardals er fallegt, rétt við heiðarbrúnina. Matthías lýsir svæðinu vel í ítarlegri grein frá ferðalagi hans og Jónasar bónda með þessum orðum árið 1965: „Þegar við vorum komnir upp á hæðina austan við Seljabrekku, blasti Stardalur við, hvít húsin með grænu þaki og stórar túnspildur, sem eitt sinn voru holt og mýrar; vestan við bæinn Stardalshnjúkur með fallegu stuðlabergi, sem er engin venjuleg húsagerðarlist og álfaborgir við efstu brúnir; þar krúnkuðu í gamla daga hrafnar, sem við þekktum, þeir voru vinir okkar; að austan Múlinn með lyngbrekkum og grænum grjótlautum; sunnan hans Leirvogsvatn og samnefnd á, sem hvítnar á Tröllafossberginu; við Hrafnhólana hef ég heyrt tröllkonur kallast á, þá var Oddur gamli í Þverárkoti enn á lífi; norður af bænum og nær himninum síljós Móskarðshnjúkur austan Esju, en þar enn austar Skálafell, og milli þess og Móskarðshnjúks, Svínaskarð; sagt er að milli Skálafells og Akureyrar séu engin fjöll á hálendinu, þaðan er því víðsýn mikil til allra átta.“

Enn óskað eftir vitnum

Þann 8. janúar óskaði lögreglan eftir vitnum að mannaferðum við Stardal vegna rannsóknar á eldsupptökum. „Það hefur engum árangri skilað,“ segir Ásgeir Pétur og ítrekar beiðni lögreglunnar um upplýsingar. Þeim má koma á framfæri í tölvupósti á netfangið as@lrh.is, í einkaskilaboðum á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eða í síma 444-1000.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert