„Við erum bara komnar með nóg“

Ljósmæður sem sinna heimaþjónustu eru á vaktinni allan sólahringinn.
Ljósmæður sem sinna heimaþjónustu eru á vaktinni allan sólahringinn. mbl.is/Golli

„Þetta fól í rauninni í sér að skerða þjónustuna, en við teljum að hún sé fullkomlega sniðin að þörfum skjólstæðinga eins og hún er í dag. Við vorum ekki tilbúnar að fórna því til að hækka launin okkar. Það var leiðin sem átti að fara. Skerða þjónustuna og nýta þann pening í að hækka launin,“ segir Arney Þórarinsdóttir, ljósmóðir og talsmaður sjálfstætt starfandi ljósmæðra í heimaþjónustu, um drög að samningi um þjónustu þeirra við sængurkonur sem fulltrúi Sjúkratrygginga Íslands kynnti fyrir þeim í gærkvöldi.

Ljósmæður sem sinna heimaþjónustu hafa verið samningslausar frá 31. janúar síðastliðnum. Þær lögðu niður störf á mánu­dag og ætla ekki að hefja störf aftur fyrr en gengið verður frá samn­ingi nýjum samningi við Sjúkra­trygg­ing­ar Íslands. 

Þjónusta skert til fyrir 1.000 króna hækkun

Í samningsdrögunum sem kynnt voru í gær var gengið út frá því að vitjunum til skjólstæðinga yrði fækkað. Með því væri hægt að hækka tímakaup ljósmæðra sem sinna heimaþjónustu úr rúmlega 4.000 krónum upp í rúmlega 5.000 krónur á tímann. Þær fengju því rétt yfir 10.000 krónur fyrir hverja vitjun sem skráð er sem tveggja tíma vinna. „Okkur þykir það ansi mikill fórnarkostnaður að taka af þjónustunni. Á síðustu árum hefur verið sú leið farin að fækka vitjunum og þetta er akkúrat mátulegt núna til að við getum veitt þá þjónustu sem við viljum.“'

Arney bendir á að þjónustan sé bæði árangursrík og hagkvæm og miklar fjárhæðir sparist með styttingu legutíma sængurkvenna inni á sjúkrahúsum. „í rauninni hefur alltaf verið farin sú leið að hagræða innan samningsins. Taka af hér og þar í staðinn fyrir að setja aðeins meira í hann og efla þessa þjónustu. Við erum bara komnar með nóg.“

Taka símtöl á nóttunni og fylgja þjónustunni eftir

Sængurkonur eiga rétt á fimm til sjö vitjunum heimaþjónustu sem þær verða að nýta sér innan tíu daga. Það segir hins vegar aðeins hálfa söguna því í raun eru ljósmæður sem sinna heimaþjónustu á vaktinni allan sólarhringinn, tilbúnar að sinna skjólstæðingum sínum ef eitthvað kemur upp á. Fyrir þá þjónustu fá þær ekki greitt aukalega.

„Við þurfum að taka við símtölum, jafnvel allan sólarhringinn. Það er hringt á nóttunni og maður þarf að fara í bráðavitjun. Skjólstæðingurinn hefur aðgang að okkur allan sólarhringinn þennan tíma. Þetta eru ekki bara þessar heimsóknir. Stundum erum við jafnvel að hringja í þær eftir að þjónustu líkur og athuga hvernig gengur. Þetta er miklu meira en það sem stendur í samningnum.“

Arney sér ljósmæður í heimaþjónustu nú bíða eftir viðbrögðum heilbrigðisráðuneytisins. „Það hafa allir, bæði við og ráðuneytið, áhyggjur af stöðunni. Hver sólarhringur sem líður skapar meiri vanda. Við viljum bara að þetta leysist svo við getum farið að sinna skjólstæðingum okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert