„Þetta kemur mér ekki á óvart“

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra.
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er svo sem bara í samræmi við það sem ég hef haldið fram um lögmæti skipunar dómaranna allra við Landsrétt þannig að þetta kemur mér ekki á óvart. Það er auðvitað ánægjulegt að nú liggi fyrir staðfesting á því frá Hæstarétti.“

Þetta segir Sigríður Andersen dómsmálaráðherra í samtali við mbl.is en Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Landsréttar í dómsmáli þar sem því hafði verið haldið fram að Arnfríður Einarsdóttir, dómari við Landsrétt, væri vanhæf vegna þess hvernig staðið var að skipun hennar. Hæstiréttur taldi hana hins vegar ekki vanhæfa til þess að fjalla um málið.

Fær leið séu menn ósammála Hæstarétti

Landsréttur hafði áður úrskurðað að Arnfríður væri ekki vanhæf til þess að fjalla um málið en lögmaður ákærða í málinu, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmðaur, áfrýjaði hins vegar þeirri niðurstöðu til Hæstaréttar fyrir hönd skjólstæðings síns.

„Þessi dómur gæti kannski verið umhugsunarefni fyrir þá sem haft hafa uppi stærstu orðin í þessu máli og viljað gera sem mestan pólitískan skarkala í kringum það. En það hefur sem sagt verið staðfest núna af Hæstarétti að skipunin var ekki ólögmæt.“

Vilhjálmur sagði í samtali við mbl.is eftir að dómur Hæstaréttar lá fyrir að málinu yrði vísað til Mannréttindadómstóls Evrópu. Innt eftir viðbrögðum við því segir Sigríður að séu menn ósammála Hæstarétti og telji ástæðu til að fara þá leið sé þeim vitanlega frjálst að gera það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert