Vísað til Mannréttindadómstólsins

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Landsréttarmálinu svonefnda verður vísað til Mannréttindadómstóls Evrópu. Þetta staðfestir Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður, við mbl.is. Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Landsréttar í máli ákæruvaldsins gegn Guðmundi Andra Ástráðssyni, en í málinu var m.a. deilt um hæfi dómara til meðferðar málsins.

„Hæstiréttur hefur talað. Þegar það er áfrýjað getur niðurstaðan annað hvort af eða á. Í þetta skiptið er hún af,” segir Vilhjálmur, inntur um viðbrögð við dómsniðurstöðunni.

Landsréttur var skipaður í fyrsta sinn á síðasta ári. Hefur Vilhjálmur í málflutningi sínum dregið í efa réttmæti skipunar dómaranna. Hann er ósammála niðurstöðu Hæstaréttar í dag.

Málsmeðferðin ólögmæt

„Ég stend fast við það sem ég hef haldið fram og tel að það fái ágæta stoð í þessum dómi að dómararnir hafi ekki verið skipaðir samkvæmt lögum. Það sem ég og Hæstiréttur erum ósammála um eru afleiðingarnar af því. Ég tel að þetta hafi verið látið sleppa í dómi Hæstaréttar ef svo má segja,” segir Vilhjálmur sem kveðst ósammála Hæstarétti um hvort tilteknir dómarar við Landsrétt fari með dómsvald með hliðsjón af málsmeðferðinni.

„Ég tel að annmarkar á málsmeðferðinni, bæði hjá ráðherra, þinginu og forseta, hafi átt að leiða til þess að dómur Landsréttar yrði ómerktur og málinu yrði vísað aftur heim í hérað, þ.e.a.s. að þessir fjórir dómarar færu ekki með dómsvald,” segir hann.

„Hæstiréttur slær því föstu í forsendum sínum að málsmeðferðin hafi verið ólögmæt. Það er vísað í skaðabótamálin tvö nú í lok desember 2017 og sagt að þeir hafi eðli máls samkvæmt fullt gildi. Hæstiréttur standi við það sem þar hafi verið sagt. Síðan er þetta látið sleppa fyrir horn,” segir Vilhjálmur.

Forniðurstaða gæti fengist eftir sex til átta mánuði

Aðspurður staðfestir Vilhjálmur að ákveðið hafi verið að vísa málinu til Mannréttindadómstólnum, vinna við málsóknina hefjist strax á næstu dögum. Um dómaframkvæmd Mannréttindadómstólsins um mál af þessum toga segir hann að styðjast megi við mikinn fjölda fordæma.

„Það er mikill fjöldi fordæma til hjá Mannréttindadómstólnum í málum af þessum toga, t.d. gegn Rússlandi. Til ákveðinna dóma var vísað í málflutningi í þessu máli sem verður byggt á, einnig má nefna nýlega ákvörðun EFTA-dómstólsins. Svo má nefna dóm Almenna dómstóls Evrópudómstólsins þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að það þyrfti að fylgja ströngum málsmeðferðarreglum við skipan dómara. Væri það ekki gert leiddi það til þess að viðkomandi dómari færi ekki með dómsvald og úrlausnir viðkomandi væru dauður bókstafur,” segir Vilhjálmur.

Vilhjálmur segir að sex til átta mánuðir gætu liðið þar til Mannréttindadómstóllinn skili forniðurstöðu, þ.e. ákvörðun um það hvort málið verði tekið til efnislegrar meðferðar.

„Þegar sú ákvörðun hefur verið tekin geta liðið tvö til þrjú ár þar til endanleg niðurstaða fæst í málið,” segir hann. Næstu daga verði unnið að því að búa þannig um málið að það verði tækt til meðferðar hjá dómstólnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert