Gott að það sé komin staðfesting

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir gott að nú sé loks búið að staðfesta yfirlýsingu ríkisins, um að viðurkenna brot gegn fjórtán kærendum í málum sem dæmd voru af einhverjum þeirra fjögurra dómara sem Sigríður Á. Andersen, skipaði við Landsrétt á sínum tíma.

Mannréttindadómstóll Evrópu birti í gær ákvörðun sína um að staðfesta yfirlýsingu ríkisins, sem felur í sér að greiddar verði fjögur þúsund evrur til hvers og eins kæranda í málskostnað. Þar að auki eiga allir kærendur þann kost að krefjast endurupptöku máls síns hjá endurupptökudómi. 

Katrín kveðst ekki geta metið hvort líklegt sé að kærendur nýti sér þann rétt. Meðal þeirra sem yfirlýsingin tekur til eru Jens Guðmundsson, sem var dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi fyrir brot í starfi sem rannsóknarlögreglumaður, Eldin Skoko og Fjölnir Guðsteinsson, sem voru sakfelldir fyrir nauðgun, og Ottó Örn Þórðarson, sem hlaut dóm fyrir smygl á amfetamíni. 

Eftirfylgni máls dómsmálaráðherra

Þá vísar Katrín frekari spurningum á dómsmálaráðuneytið, enda sé um eftirfylgni máls að ræða, sem heyri undir það ráðuneyti. 

Íslenska ríkið gerði dómsátt við tvo kærendur, þá Atla Briem og Gunnlaug Briem. Atli var dæmdur fyrir manndráp árið 2000 en höfðaði mál til að freista þess að fá lögmannsréttindi sín á ný. Gunnlaugur kærði niðurstöðu Hæstaréttar til MDE vegna endurtekinnar refsimeðferðar vegna skattalagabrota. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert