Eiganda buy.is gert að greiða 258 milljónir

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Jón Pétur

Landsréttur hefur aftur dæmt í skattsvika­mál Friðjóns Björg­vins Gunn­ars­sonar, fyrr­ver­andi eig­anda netverslananna buy.is og best­buy.is, en hann hafði þegar verið sak­felld­ur árið 2018 fyr­ir meirihátt­ar brot gegn skatta­lög­um bók­halds­brot og pen­ingaþvætt­i.

Í byrjun þessa árs greindi mbl.is frá því að mál Friðjóns væri meðal þeirra mála sem fallist hafði verið á að taka upp aftur vegna Landsréttarmálsins svokallaða. Var það vegna ólögmætarar skip­unar­ Sig­ríðar Á. And­er­sen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, á dómur­um í Lands­rétt árið 2017. 

Landsréttur komst á ný að sömu niðurstöðu og í fyrra skiptið og mun Friðjón enn þurfa að sæta 18 mánaða fangelsisvistar og greiða sekt upp á 258 milljónir króna, eins og dæmt var árið 2018.

Tekið upp í þriðja sinn

Árið 2017 var Friðjón dæmd­ur í Héraðsdómi Reykja­vík­ur í tveggja og hálfs árs fang­elsi og gert að greiða 307,6 millj­óna króna vegna skattsvika. Jafnframt var eig­in­kon­a hans fund­in sek um pen­ingaþvætti með því að hafa veitt viðtöku 11,5 millj­ón­um á reikn­ing sinn og var hún dæmd í fjög­urra mánaða skil­orðsbundið fang­elsi.

Ári síðar, 2018, mildaði Lands­rétt­ur dóminn yfir Friðjóni með því að fella frá einn ákærulið og var sektarupphæðin lækkuð. tukthúsvist hans stytt í 18 mánuði og honum gert að borga 258 millj­ón­ir króna í sekt. Lands­rétt­ur sýknaði einnig eig­in­konu Friðjóns af refsi­kröfu vegna pen­ingaþvætt­is vegna fyrn­ing­ar brota henn­ar.

Fleiri mál voru endurupptekin vegna Landsréttarmálsins. Þeirra á meðal var mál Ein­ars Ágústs­sonar, sem hvað þekkt­ast­ur er fyr­ir að vera ann­ar bróðir­inn á bak við trú­fé­lagið Zuism. Greint var frá því í dag að Lands­rétt­ur hafi einnig komist að sömu niður­stöðu í því máli og áður, það er að dæma Ein­ar í þriggja ára fang­elsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert