Ósamræmi í umferð hernaðartækja

Um 7-10 þúsund manns lögðu leið sína á Flugsýninguna í …
Um 7-10 þúsund manns lögðu leið sína á Flugsýninguna í Reykjavík í september, að sögn skipuleggjenda. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjórn Flugmálafélags Íslands hefur sent frá sér ályktun þar sem talað er um ósamræmi Reykjavíkurborgar gagnvart umferð hernaðartækja um sveitarfélagið.

Fram kemur að félagið fagni því að borgarstjóri taki þessa dagana vel á móti fjölda herskipa vegna þátttöku þeirra í hernaðaræfingu. Á hinn bóginn gagnrýnir það að borgarstjóri hafi hindrað þátttöku óvopnaðra ítalskra herflugvéla á flugsýningunni á Reykjavíkurflugvelli í september.

Herskip í Reykjavíkurhöfn.
Herskip í Reykjavíkurhöfn. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

„Flugsveitin var hápunktur sýningarinnar en borgarstjóri hindraði komu þeirra á elleftu stundu og braut þar áralanga hefð í flugmálasamskiptum Íslands við vinaþjóðir sínar og olli gestum miklum vonbrigðum,“ segir í ályktuninni.

Þar er bætt við að félagið vonist til þess að í framtíðinni verið gætt samræmis á milli aðila þegar kemur að umferð erlendra farartækja um sveitarfélagið.

Ályktunin í heild sinni:

„Flugmálafélagið fagnar því að borgarstjóri Reykjavíkur taki nú vel á móti fjölda herskipa sem þessa dagana eru við strendur Reykjavíkur og í höfnum þess vegna þátttöku í hernaðaræfingu. Skipin eru meðal stærstu og öflugustu herskipa veraldar og því brynvarin og vopnuð eftir því. Í dag hafa íbúar Reykjavíkur getað fylgst með skipunum koma inn sundin og leggjast að bryggju. Sjá má skipin í návígi, fylgst með þeim sigla og ræða við skipverja eftir því sem þeir fara frá borði. Sannkölluð skipaveisla fyrir allt áhugafólk um skip og siglingar.

Það er því við þessar aðstæður Flugmálafélaginu sérstaklega þungbært að fyrir nokkrum vikum lagði sami borgarstjóri mikið á sig persónulega til þess að hindra þátttöku óvopnaðra ítalskra herflugvéla á flugsýningunni á Reykjavíkurvelli sem 8-10.000 gestir sóttu í september. Flugsveitin var hápunktur sýningarinnar en borgarstjóri hindraði komu þeirra á elleftu stundu og braut þar áralanga hefð í flugmálasamskiptum Íslands við vinaþjóðir sínar og olli gestum miklum vonbrigðum.

Flugmálafélagið vonar að til framtíðar verði samræmis gætt á milli aðila þegar kemur að umferð erlendra farartækja um sveitarfélagið.

Samþykkt af stjórn Flugmálafélags Íslands.

17.10.2018“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert