Fjölmennt herlið æfði í Keflavík

Bandarískir landgönguliðar æfðu á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli í morgun.
Bandarískir landgönguliðar æfðu á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli í morgun. Árni Sæberg

„Fyrsta verk landgönguliðanna er að setja upp öryggissvæði. Þegar því er lokið er hægt að flytja inn meira herlið, ef nauðsyn krefur, en á þessari æfingu er markmiðið að æfa flutning á hermönnum frá hafi og tryggja í kjölfarið lendingarsvæðið,“ segir Misca T. Geter, undirofursti hjá landgönguliði Bandaríkjahers, í samtali við mbl.is.

Um 120 bandarískir landgönguliðar æfðu í morgun á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli, en sérsveit ríkislögreglustjóra sá um öryggisgæslu á meðan. Landgönguliðarnir koma frá Norður-Karólínu í Bandaríkjunum og munu þeir taka þátt í æfingunni Trident Juncture, umfangsmesta heræfing Atlantshafsbandalagsins frá árinu 2015, sem haldin verður á Norður-Atlantshafi og í Noregi. Alls munu um 40.000 hermenn og borgaralegir sérfræðingar taka þátt.

Landgönguliðarnir voru fluttir í land með þyrlum af gerðinni CH-53 …
Landgönguliðarnir voru fluttir í land með þyrlum af gerðinni CH-53 frá herskipinu USS Iwo Jima. Árni Sæberg

Geter segir það afar mikilvægt fyrir landgönguliða að æfa við ólíkar aðstæður og því sé Bandaríkjaher þakklátur íslenskum stjórnvöldum fyrir að hafa heimilað æfingar á Íslandi. „Þetta veitir okkur einstakt tækifæri til að æfa aðgerðir við köld veðurskilyrði. Við munum án efa læra mikið af aðstæðum hér og landgönguliðarnir munu kynnast því hvernig veður getur haft áhrif á aðgerðir,“ segir hún.

Nánar verður fjallað um æfingar landgönguliða á Reykjanesi í Morgunblaðinu á morgun. 

Um 120 landgönguliðar tóku þátt.
Um 120 landgönguliðar tóku þátt. Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert