Öryggisverðir gæta innganga Rimaskóla

Öryggisverðir munu sinna gæslu áfram í dag og á morgun.
Öryggisverðir munu sinna gæslu áfram í dag og á morgun. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Skólastjóri Rimaskóla í Grafarvogi brá á það ráð í síðustu viku að fá til sín öryggisverði frá Securitas til að sinna gæslu við skólann vegna mikilla forfalla í starfsmannahópnum og óróleika innan hverfisins, en hnífsstunguárás átti sér stað við þjónustumiðstöðina Miðgarð á miðvikudagskvöld.

Einn til tveir öryggisverðir hafa staðið við innganga skólans á skólatíma frá því á föstudag og gætt þess að óviðkomandi einstaklingar komist ekki inn, en borið hefur á því upp á síðkastið. Skólastjórinn segir mikilvægt að opna á umræðu um öryggismál innan skólanna.

„Það hafa verið mikil forföll hjá mér í starfsmannahópnum, hjá almennum skólaliðum, vegna veikinda, þannig að þeir hafa komið inn til okkar þegar vantar fólk til að hjálpa okkur við gæslu,“ segir Þóranna Rósa Ólafsdóttir, skólastjóri Rimaskóla, í samtali við mbl.is. Öryggisverðirnir koma til starfa við skólann sem verktakar og geta stokkið inn með skömmum fyrirvara.

„Það var óróleiki í hópnum okkar“ 

Öryggisverðirnir hafa sinnt gæslu frá því á föstudag og verða væntanlega áfram á morgun, en Þóranna gerir svo ráð fyrir starfsfólki skólans aftur til vinnu þegar líður á vikuna. Þá verður ekki lengur þörf á þjónustu öryggisvarða.

„Við fengum þá því þeir geta dottið inn í svona og svo vill maður ekki fá hvern sem er inn til sín þegar almenna starfsfólkið er veikt. Þeir komu og stóðu við hurðir og gerðu í raun og veru bara það sem við gerum. Við nýttum skólaliðana meira úti í gæslu með krökkunum en fengum öryggisverðina til að vera við hurðarnar,“ útskýrir hún.

Aðspurð hvort gripið hafi verið til þessarar ráðstöfunar vegna ákveðinna atburða, segir Þóranna að vissulega hafi ákveðins óróleika gætt. Það hafi spilað inn í.

„Það var sameiginlegt ball félagsmiðstöðvanna hérna á miðvikudaginn, þannig það var óróleiki í hópnum okkar. Við vildum því líka tryggja að það væri mannskapur á svæðinu. Það var þess vegna. Það var líka hnífsstunga hérna í hverfinu,“ segir Þóranna og vísar til þess að 15 ára drengur stakk annan 17 ára við Miðgarð á miðvikudagskvöld. En árásin virðist hafa verið tilefnislaus.

„Við vildum líka taka á því og vera þá með rétt fólk á útivaktinni. Það er svo vont að hafa ekki nógu marga á útivaktinni með krökkunum.“

Mikilvægt sé að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að tryggja öryggi barnanna.

Óviðkomandi einstaklingar hafa komist inn 

Þóranna setti sig í samband við skóla- og frístundasvið til að fá upplýsingar um hvernig þau gætu brugðist við þeim miklu forföllum sem þau stóðu frammi fyrir, og var þá bent á fyrirtæki sem sinna öryggisgæslu.

Hún gerir ráð fyrir að kalla aftur til öryggisverði ef talin verður þörf á því. „Já, ef við þurfum þá gerum við það, ekki spurning. Það er fínt að hafa gott fólk í húsi.“

Aðspurð hvort það hafi verið vandamál að óviðkomandi einstaklingar hafi komist inn í skólann, segir hún það koma fyrir.

„Við fáum stundum óviðkomandi aðila hingað inn. Reykjavíkurborg hefur tölvuvætt börnin í skólum þannig það eru ákveðnir fjármunir sem liggja hérna oft á glámbekk. Við erum líka að gæta þess að það sé ekki verið að taka töskurnar hjá krökkunum með tölvunum þeirra í. Við þurfum að vera vakandi yfir þessu, það er alls konar í gangi í þjóðfélaginu,“ segir Þóranna.

„Við þurfum bara að hugsa út í þetta. Við erum með ofboðslega opna skóla á Íslandi. Við þurfum aðeins að fara að ígrunda það,“ bætir hún við.

Breytt þjóðfélag kalli á umræðu um öryggismál

Þóranna segir öryggismál innan skólanna vera töluvert til umræðu meðal kennara. „Við erum mjög opin. Þetta tíðkast ekki erlendis. Við erum með breytt þjóðfélag núna og þurfum aðeins að skoða hvert við stefnum og hvernig við viljum hafa hlutina. Hvernig ætlum við að tryggja öryggi barnanna okkar? Það getur margt gerst og þá er eins gott að vera með puttann á púlsinum og vera fyrri til.“

Aðspurð hvort foreldar hafi kallað eftir aukinni gæslu, segir hún svo ekki vera. Öryggismál séu aðallega til umræðu hjá kennurunum sem eru á vettvangi og sjá því ýmislegt.

„Það þarf að fara að opna þessa umræðu með skólana, eins og þetta sem gerðist með Borgó á sínum tíma, þar eru held ég nítján inngangar,“ segir Þóranna og vísar til árásar sem gerð var í Borgarholtsskóla í janúar árið 2021. Þá mættu þrír einstaklingar vopnaðir í skólann og til hópslagsmála kom innan skólans, sem bárust svo út. Sex voru fluttir á slysadeild í kjölfarið. Í síðustu viku voru fimm karlmenn ákærðir vegna árásarinnar.

„Við erum rosalega bláeyg. Við verðum að vera á undan og tryggja að allir séu öryggir, við megum ekki bíða. Við horfum á stóru fyrirtækin, eru ekki allir með aðgangskort þar? En í skólunum? Þar geta allir gengið inn. Dýrmætasta eign foreldranna er hérna hjá okkur,“ segir Þóranna sem vill allavega ekki taka neina áhættu. „Maður vill bara gera extra í raun og veru til að tryggja öryggi allra.“

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert