Sex á slysadeild vegna átaka í Borgarholtsskóla

Frá vettvangi. Fjórir voru fluttir á slysadeild með áverka.
Frá vettvangi. Fjórir voru fluttir á slysadeild með áverka. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er nú með umtalsverðan viðbúnað við Borgarholtsskóla vegna átaka sem áttu sér stað þar. Sex hafa verið fluttir á slysadeild vegna þeirra. Sérsveitin er á svæðinu. Samkvæmt heimildum mbl.is er um stunguárás að ræða.

Um klukkan 13 í dag barst lögreglu tilkynning um átökin. Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn segir í samtali við mbl.is að tilkynnt hafi verið um einhvern vopnaburð, m.a. hafnaboltakylfu.

Frá vettvangi.
Frá vettvangi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það eru einhvers konar átök að eiga sér stað, ekki ljóst með hvaða hætti. Við erum búin að flytja fjóra á slysadeild og málið er í rannsókn,“ segir Elín Agnes Kristínardóttir aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. 

Frá vettvangi.
Frá vettvangi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skólinn öruggur

Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn segir í samtali við mbl.is að lögreglan sé með fulla stjórn á vettvangi en það sé skólans að ákveða hvort nemendur og starfsfólk verði sent heim. 

„Það er búið að gera skólann öruggan. Við erum með fulla stjórn á vettvangi og erum komnir með flesta þá aðila sem áttu þarna hlut að máli,“ segir Ásgeir. 

Frá vettvangi.
Frá vettvangi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki er mögulegt að greina frá áverkum hinna slösuðu að svo stöddu. 

Elín segir marga lögreglumenn, rannsóknarlögreglumenn og sjúkraflutningamenn á svæðinu. 

Vísir greindi fyrst frá.

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is