„Við munum sjá sól um helgina“

Það er aldrei að vita nema hægt verði að baða …
Það er aldrei að vita nema hægt verði að baða sig í sólinni um helgina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við munum sjá sól um helgina en það verður reyndar ekki mjög hlýtt,“ segir veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands í samtali við mbl.is.

„Helgin sem slík er býsna góð fyrir suðvesturhornið en ekkert sérstaklega hlý. Það verður mjög hægur vindur og hlýindin verða drifin áfram af sólskini en ekki hlýju lofti sem er að koma til landsins.“

Segir hann lofthita varla ná 15 gráðum en að veður verði þó bjart og fallegt. Það megi búast við að hæðin komi yfir landið um helgina og að það létti til þegar líði á laugardag á öllu sunnanverðu landinu.

Búið í bili eftir helgi

„Það verður enn skýjað í kringum Snæfellsnes, Breiðafjörð og sunnanverða Vestfirði og eitthvað inn á Norðvesturland en vel bjart á austan- og sunnanverðu landinu. Sunnudagurinn verður, ef eitthvað er, ennþá bjartari og mánudagurinn gæti orðið fínn líka.“

Eftir helgina virðist þetta vera búið í bili, að sögn veðurfræðingsins, og við fáum aftur yfir okkur eitthvað suðlægt og þungbúið.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert