Brotum fjölgar og lögregla oftar vopnuð

Lögreglumenn að störfum.
Lögreglumenn að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þessar tölur eru til marks um harðnandi umhverfi í löggæslu. Við höfum verulegar áhyggjur af þessu,“ segir Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra.

Líkt og kom fram í Morgunblaðinu á dögunum hefur brotum gegn starfsmönnum lögreglu og héraðssaksóknara fjölgað mikið á síðustu árum. Hlutfallslega fjölgaði brotum mest í umdæmi lögreglustjórans á Norðurlandi eystra. Árið 2013 voru skráð brot þar átta en í fyrra voru þau 50.

Páley segir í samtali við Morgunblaðið að bæði hafi málum sem lögregla þarf að fást við fjölgað en þau séu jafnframt stærri, alvarlegri og flóknari á síðari árum en áður var. Hegningarlagabrotum hafi fjölgað um 255 milli áranna 2022 og 2023, þau fóru úr 709 í 964, og svokölluðum sérrefsilagabrotum, sem taka meðal annars til áfengis- og fíkniefnalagabrota, fjölgaði úr 385 í 590 á sama tímabili.

Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri.
Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri. mbl.is/Þorgeir

„Samhliða þessu fjölgar tilvikum þar sem almenna lögreglan þarf að vopnast. Það gerðist 24 sinnum í umdæminu okkar á síðasta ári en árið á undan voru skiptin fimm talsins.“

Hún segir að lögregla sé illa í stakk búin til að mæta verkefnum í þessu breytta umhverfi. Fjölga þurfi lögreglumönnum umtalsvert. „Við erum allt of fá. Á svona stóru svæði sem Norðurland eystra er þarf að bæta verulega í.“

Jón Gunnarsson þáverandi dómsmálaráðherra kynnti fyrir rúmu ári það sem kallað var „stórefling í lykilþáttum íslenskrar löggæslu“ og fól meðal annars í sér fjölgun lögreglumanna á landsbyggðinni og við almenna löggæslu. Páley segir aðspurð að fjölgað hafi verið um fjóra lögreglumenn í hennar umdæmi. Þeir hafi verið nýttir til að styrkja landamæraeftirlit og varnir gegn skipulagðri glæpastarfsemi.

„En við þurfum að vera miklu fleiri í útköllunum og rannsóknum. Við þurfum að vera sterkari til að ráða við stóru verkefnin. Þegar menn eru fáir í verkefnum verða þeir frekar fyrir ofbeldi,“ segir Páley.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hún segir að skýrsla frá greiningardeild ríkislögreglustjóra og Schengen-úttekt frá því í fyrra staðfesti að þörf sé á auknum mannskap. Hún og fleiri hafi reynt að vekja athygli ráðherra og þingmanna á því hve staðan sé alvarleg en án árangurs. „Ef við missum stjórn á friði og öryggi í landinu þá vill enginn búa hér eða starfa. Það verður að líta á lögregluna sem grunnþjónustu og tryggja henni það fjármagn sem hún þarf. En menn virðast líta þetta misjöfnum augum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert