25 þúsund gestir á Verk og vit

Mikil aðsókn var á Verk og vit.
Mikil aðsókn var á Verk og vit. mbl.is

Um 25 þúsund gestir sóttu sýninguna Verk og vit í apríl, sem er svipuð aðsókn og hefur verið í síðustu tvö skiptin sem sýningin hefur verið haldin, þ.e. árin 2018 og 2022.

Fram kemur í tilkynningu að sýningarrýmin fyrir sýninguna hafi selst upp í ágúst í fyrra og eftir það myndast langur biðlisti.

100 tóku þátt

Yfir 100 sýnendur tóku þátt í sýningunni sem haldin var í sjötta sinn í Laugardalshöll 18.-21. apríl.

Á sýningunni fær fólk tækifæri á að sjá það nýjasta í byggingariðnaði, mannvirkjagerð og skipulagsmálum þar sem stofnanir og fyrirtæki kynna vörur sínar og þjónustu.

Nokkrir viðburðir voru haldnir samhliða sýningunni og meðal þeirra var ráðstefna á vegum Samtaka iðnaðarins.

18. og 19. apríl var sýningin aðeins ætluð fagaðilum en dagana 20. og 21. apríl gafst almenningi kostur á að sjá hana. 

Buðu nemendum á sýninguna

Verk og vit ásamt Samtökum iðnaðarins buðu einnig um 1.800 nemendum í 10. bekk á sýninguna og Verk og vit, Ístak og BYKO buðu þangað jafnframt um 300 framhalds- og háskólanemum.

Svandís Svavarsdóttir, innviðaráðherra, setti sýninguna formlega en Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Sigurður Hannesson, framkvæmdarstjóri Samtaka iðnaðarins, fluttu einnig ávörp.

„Að þessu sinni lögðu sýnendur áherslu á uppbyggingu í iðnaði, iðnmenntun, fjárfestingu í innviðum og umhverfismál, sem eru allt mál sem eru mikið í deiglunni,“ segir Áslaug Pálsdóttir, framkvæmdastjóri AP almannatengsla, í tilkynningunni.

Undirbúningur næsta sýningar er þegar hafinn, en hún er fyrirhuguð árið 2026.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert