„Erum áfram á tánum“

Frá miðnætti mældust um 20 jarðskjálftar dreift yfir í kvikuganginum …
Frá miðnætti mældust um 20 jarðskjálftar dreift yfir í kvikuganginum við Svartsengi. Ljósmynd/Hörður Kristleifsson

Frá miðnætti mældust um 20 jarðskjálftar dreift yfir í kvikuganginum við Svartsengi og í gær mældust þeir 57 talsins.

Að sögn Einars Hjörleifssonar, náttúruvásérfræðings á Veðurstofu Íslands, heldur landris áfram að mælast á svæðinu en skjálftavirknin hefur verið mjög svipuð síðustu daga.

„Við erum áfram á tánum og búumst áfram við kvikuhlaupi og öðru eldgosi,“ segir Einar við mbl.is en um 17 milljónir rúmmetra af kviku hafa bæst við kvikuhólfið frá 16. mars.

Einar segir að áfram sé haldið að vakta skjálftagögnin en hann segir að þau hafi reynst góður fyrirboði samhliða öðrum gögnum eins GPS mælum og borholumælingum hjá HS Orku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert