Kynferðisleg misnotkun á konum mest á Íslandi

Hvergi á Norðurlöndum er kynferðisleg misnotkun á konum og nauðganir jafntíðar og hér á landi en þriðjungur íslenskra kvenna hefur orðið þess konar ofbeldi, að því er segir í frétt finnska fréttavefjarins YLE. Finnar koma næstir Íslendingum en 27% finnskra kvenna hefur verið nauðgað eða þær beittar kynferðislegu ofbeldi.

Algengast er í Finnlandi, miðað við hin Norðurlöndin, að konur séu beittar líkamlegu ofbeldi, segir ennfremur í frétt YLE. Tveir þriðju hlutar finnskra kvenna hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeldi og er það mun hærra hlutfall en annars staðar á Norðurlöndunum. Ein af hverjum sex ófrískum konum er beitt líkamlegu ofbeldi í Finnlandi.

YLE vitnar til fréttar í dagblaðinu Helsingin Sanomat þar sem greint er frá rannsókninni sem er ný af nálinni. Niðurstöðurnar leiða í ljós að um þriðjungur finnskra kvenna verður fyrir kynferðislegu ofbeldi og tæplega 40% fyrir andlegu ofbeldi. Rannsóknin tekur til heimsókna á læknastofur á Norðurlöndunum.

Erja Halmesmäki, sem fór fyrir finnska rannsóknarhópnum, segist vonast til þess að niðurstöður rannsóknarinnar þvingi fólk til að spyrja sig hvers vegna þessar tölur séu svo háar.

Hlutfallslega mun færri sænskar konur eru beittar líkamlegu ofbeldi eða um 38%. Minnst var um ofbeldið í Svíþjóð í öllum flokkum.

Það var þó sama hvert litið var, á öllum Norðurlöndunum brugðust fórnarlömbin á sama máta við misnotkuninni. Fá þeirra leituðu til læknis en flestar konur töluðu aldrei um ofbeldið. Allt að 60 finnskar konur eru drepnar á ári hverju þegar þær eru beittar ofbeldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert