Kúluskítnum fagnað

Kúlúskít er eingöngu að finna í tveimur vötnum í heiminum.
Kúlúskít er eingöngu að finna í tveimur vötnum í heiminum. mbl.is

Fyriribærinu kúluskít verður í fyrsta skiptið fagnað með sérstakri hátíð í Mývatnssveit um aðra helgi. Kúluskítur er kúlulaga þörungur og er einungis að finna á tveimur stöðum í heiminum í Mývatni og Akan-vatni á Hokkido-eyju í Japan. Þessum sjaldgæfa vatnabúa verður fagnað með fjölbreyttri dagskrá við Mývatn 19.-21. september.

Í fréttatilkynningu frá aðstandendur hátíðarinnar við Mývatn kemur fram að Kúluskítshátíð hafi verið haldin við Akan-vatn frá árinu 1950 og er hátíðin ein þekktasta hátíð Japana í dag. „Við Mývatn verður sett upp hátíð að japanskri fyrirmynd en þó með íslensku ívafi. Leitast verður við að gera íslenskum siðum, venjum og hegðun hátt undir höfði.

Kúluskítur er kallaður “Marimo” í Japan, latneska nafnið er “Cladophora sauteri” eða “Cladophora aegagropila” og uppgötvaðist hann fyrst árið 1823 af Dr. Anton E. Sauter, austurískum líffræðingi.

Kúluskítur hefur oft átt undir högg að sækja í Lake Akan Japan, en þar gegnir hann mikilvægu hlutverki í ferðaþjónustu sem og er hann nauðsynlegur þáttur í lífkeðju vatnsins. Eftir að japanska stjórnin lýsti yfir að kúluskítur skyldi vera skráð sem þjóðarverðmæti árið 1920, dreif fólk að úr öllum áttum til að skoða þetta fyrirbæri. Margir tóku með sér kúluskít og víða var hann til sölu á svörtum markaði.

Árið 1940 gerðu íbúar á svæðinu kringum vatnið sér grein fyrir að nauðsynlegt væri að friða kúluskítinn og árið 1950 héldu þeir fyrstu Kúluskítshátíðina. Nú er hátíðin haldin ár hvert, í október, þar sem Kúluskíturinn er hafin til vegs og virðingar.

Dagskrá kúluskítshátíðar hefst föstudaginn 19. september með kyndilgöngu í Höfða niður að Mývatni , þar sem mývetnski veiðimaðurinn kemur með kúluskít að landi. Veiðimaðurinn afhendir Kúluskítshöfðingja Mývatnssveitar Kúluskítinn til varðveislu yfir hátíðina. Þegar höfðinginn hefur tekið við Kúluskítnum hefst flugeldasýning. Að flugeldasýningu lokinni verður nýr Kúluskítsdrykkur kynntur á barkveldi á Sel – Hótel Mývatni.

Á laugardeginum hefst hátíðin að nýju með bænastund í Skjólbrekku þar sem beðið er fyrir Kúluskítnum og veiði í Mývatni. Að bænastund lokinni flytur Kúluskítshöfðinginn stutt ávarp og síðan verður skemmtun með ýmsum uppákomum. Um kvöldið verður Kúluskítsgrillveisla og Kúluskítsball. Hátíðinni lýkur síðan á sunnudeginum með því að ungur veiðimaður skilar Kúluskítnum aftur í Mývatn með von um góða veiði á næstu árum.

Kúluskítshátíðin verður árlegur viðburður við Mývatn. Nú þegar er hafin undirbúningur hátíðarinnar næsta ár sem verður daganna 24. til 26. september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert