Blair segist hafa lýst andstöðu við hvalveiðar á fundi með Halldóri

Tony Blair og Halldór Ásgrímsson á skrifstofu Blairs í Downingstræti …
Tony Blair og Halldór Ásgrímsson á skrifstofu Blairs í Downingstræti 10 í Lundúnum í febrúar. AP

Í bréfi, sem Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, hefur sent náttúruverndarsamtökunum Alþjóðadýraverndarsjóðnum, segist hann hafa rætt um hvalveiðar á nýlegum fundi með Halldóri Ásgrímssyni, forsætisráðherra. Segir Blair í bréfinu, að íslensk stjórnvöld fari ekki í grafgötur með andstöðu Breta við hvalveiðar Íslendinga. „Í þessu máli höfum við verið sjálfum okkur samkvæmir og staðfastir," segir Blair.

Dýraverndarsamtökin birtu heilsíðu auglýsingu í blaðinu The Times sama dag og Halldór gekk á fund Blairs í Downingstræti 10 í febrúar. Þar var Blair hvattur til að ræða hvalveiðimálið við Halldór.

Í tilkynningu frá Alþjóðadýraverndarsjóðnum segir, að í bréfinu staðfesti Blair, að Bretar muni áfram beita sér gegn frekari hvalveiðum Íslendinga. Hann segir að bresk stjórnvöld telji að veiðar í vísindaskyni séu andstæðar anda hvalveiðibanns Alþjóðahvalveiðiráðsins og vilja ráðsins.

Þá segist Blair einnig að bresk stjórnvöld hafi miklar efasemdir um gildi vísindaveiðanna og hvetji Íslendinga til að hætta þessum órökstuddu og ónauðsynlegum rannsóknum.

Robbie Marsland, framkvæmdastjóri Alþjóðadýraverndarsjóðsins í Bretlandi, segist fagna því að Blair hafi tekið þetta mál upp á fundinum og samtökin hvetji hann og aðrar þjóðir til að þrýsta á Íslendinga um að hætta þessum grimmúðlegu og óþörfu veiðum. Þá hvetji samtökin Íslendinga til að taka mark á alþjóðlegri gagnrýni og andstöðu ferðaþjónustunnar og hætta hvalveiðunum án tafar.

Auglýsingin sem birtist í The Times á sínum tíma.
Auglýsingin sem birtist í The Times á sínum tíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert