Ólafsfell kaupir hlut í Árvakri

Björgólfur Guðmundsson,
Björgólfur Guðmundsson, Þorkell Þorkelsson

Morgunblaðinu hefur borist eftirfarandi fréttatilkynning frá Ólafsfelli ehf.:

„Ólafsfell ehf., sem er félag í eigu Björgólfs Guðmundssonar, hefur keypt 8% hlut í útgáfufélaginu Árvakri hf. af Lynghaga ehf., félagi í eigu fjölskyldu Ingileifar Hallgrímsdóttur. Kaupverð er trúnaðarmál.

Ólafsfell ehf. er eignarhaldsfélag sem hefur einbeitt sér undanfarið að fjárfestingum í útgáfufyrirtækjum en fyrir á félagið 82% hlut í Eddu útgáfu hf. sem er stærsta bókaútgáfa landsins og öflugasti útgefandi bókmennta hér á landi. Edda útgáfa hf. gefur út bækur undir merkjum Máls og menningar, Vöku-Helgafells, Iðunnar og undir eigin merki. Árvakur er eitt elsta og öflugasta útgáfufélag landsins en félagið gefur út virtasta fréttablað þjóðarinnar, Morgunblaðið, sem jafnframt er stærsti áskriftarfjölmiðill landsins. Þá gefur Árvakur einnig út mbl.is sem er vinsælasti netmiðill landsmanna.

Björgólfur Guðmundsson, eigandi Ólafsfells, segir mörg spennandi tækifæri vera í útgáfu hér á landi. "Mikil umskipti hafa verið í útgáfumálum á Íslandi á undanförnum árum. Mestu skiptir ný tækni, nýir ókeypis fjölmiðlar og nýir öflugir fjárfestar. Við slíkar aðstæður opnast ávallt ný tækifæri. Morgunblaðið og mbl.is eru fjölmiðlar í áhugaverðri stöðu sem njóta virðingar sem er nauðsynlegur grunnur að öllu framtíðarstarfi. Með fjárfestingu Ólafsfells ehf. í Árvakri er ég einfaldlega að segja að ég hafi trú á framtíð félagsins og að ég vilji verða að liði við framtíðaruppbyggingu á félaginu," segir Björgólfur Guðmundsson.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert