Náttúruverndarsamtökin kæra náttúruspjöll í Heiðmörk

Stórir skurðir hafa verið grafnir í gegnum Þjóðhátíðarlundinn í Heiðmörk.
Stórir skurðir hafa verið grafnir í gegnum Þjóðhátíðarlundinn í Heiðmörk. mbl.is/RAX

Náttúruverndarsamtök Íslands hafa sent lögreglu höfuðborgarsvæðisins kæru vegna náttúruspjalla í Heiðmörk. Að sögn Árna Finnssonar, formanns samtakanna, er farið fram á að lögreglan rannsaki hvort jarðrask vegna framkvæmda Kópavogsbæjar á svæðinu sé brot á náttúruverndarlögum og skipulags- og byggingarlögum.

Árni sagði, að rannróknarskylda hvílir á lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og hann hafi svarað og tilkynnt að málið fari í venjubundinn farveg.

Í kæru Náttúruverndarsamtakanna er vísað til umhverfisspjalla sem unnin hafi verið í útivistar- og skógræktarsvæðinu Heiðmörk. Spjöll þessi stafi af framkvæmdum sem gerðar hafi verið á vegum Kópavogsbæjar af verkatakafyrirtækinu Klæðningu ehf.

„Ljóst er að stórir skurðir hafa verið ruddir með tilheyrandi spjöllum, m.a. á svokölluðum Þjóðhátíðarlundi, og ekki verður séð að fyrir hafi legið tilskilin leyfi, né samráð. Verður ekki annað séð en að um sé að ræða skýlaust brot á 27. gr. Skipulags- og byggingarlaga sem og lögum um náttúruvernd nr. 44/1999. Einnig kann að vera um að ræða brot á fleiri lögum. Náttúruverndarsamtök Íslands fara því fram á að lögreglan rannsaki viðkomandi spjöll og hver beri ábyrgð á þeim þannig að viðkomandi verði látinn sæta ábyrgð að lögum," segir í kærunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert