Dæmdur í árs fangelsi fyrir ofsaakstur

Lögreglu tókst loks að stöðva bílinn á mótum Sæbrautar og …
Lögreglu tókst loks að stöðva bílinn á mótum Sæbrautar og Súðarvogs. mbl.is/Júlíus

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann um tvítugt í 12 mánaða fangelsi, þar af 9 mánuði skilorðsbundna, fyrir ofsaakstur í Reykjavík í febrúar sl. Maðurinn var undir áhrifum fíkniefna og ökuréttindalaus en hann ók langt yfir leyfilegum hámarkshraða um götur í Reykjavík og Kópavogi og virti ekki stöðvunarmerki lögreglu. Þá var hann talinn hafa stofnað lífi og heilsu tveggja farþega í bílnum og annarra vegfarenda í hættu.

Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða 300 þúsund krónur í sekt og sviptur ökuréttindum í 2 ár. Hann var m.a. fundinn sekur um brot gegn því ákvæði hegningarlaga sem fjallar um röskun á öryggi farartækja eða umferðaröryggi á alfaraleiðum en viðurlög við slíku broti eru allt að 6 ára fangelsi. Þá var maðurinn einnig talinn hafa brotið gegn lagaákvæði sem fjallar um það þegar lífi eða heilsu annarra er stofnað í augljósan háska en það varðar allt að 4 ára fangelsi.

Maðurinn ók m.a. um Höfðabakka, inn á Vesturlandsveg og vestur Ártúnsbrekku með allt að 160 kíló­­metra hraða þar sem leyfður hámarkshraði er 80 km og þaðan norður Skeiðarvog og inn Mörkina. Þaðan ók hann inn á Suðurlandsbraut í austur með allt að 130 km hraða þar sem leyfður hámarkshraði er 50 km, síðan yfir grasflöt og inn á aðrein að Miklubraut við Sæbraut og þaðan inn á Sæbraut, án þess að nema staðar við biðskyldu og suður Reykjanesbraut, upp á gangstétt og inn á bílastæði við Pizza Hut við Bústaðaveg þar sem hann ók utan í kyrrstæðan bíl.

Af bílastæðinu ók hann yfir grasflöt og umferðareyju, inn á Reykjanesbraut við Bústaðaveg og suður að hringtorgi við Smiðjuveg á allt að 130 km hraða þar sem leyfður hámarkshraði er 70 km. Þaðan lá leiðin um Smiðjuveg, Stekkjarbakka, Höfða­bakka og Fálkabakka og vestur Arnarbakka, Dvergabakka, Álfabakka, Stekkjarbakka og inn á Reykjanesbraut í norður en lögreglunni tókst loks að stöðva för bílsins með því að aka á hann við vegamót Súðavogs.

Fram kemur í dómnum, að maðurinn hafi fimmtán sinnum áður verið fundinn sekur um hegningar­laga-, umferðarlaga- og fíkniefnalagabrot á árunum 2004-2006. Hann hefur m.a. ítrekað verið sviptur ökuréttindum fyrir hraðakstur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert