Flugvernd komi í innanlandsflugi

Vopnaleit og gegnumlýsing af farangri getur orðið að veruleika í innanlandsflugi hér á landi ef drög að nýrri reglugerð Evrópusambandsins verða samþykkt. Myndi það þýða verulegan útgjaldaauka í innanlandsfluginu.

Þetta kom fram í máli Þorgeirs Pálssonar flugmálastjóra á málþingi um samgönguáætlun 2003-2014 sem haldið var í fyrradag. Sagði hann að nú væri svokölluð flugvernd (Airport Security) á Keflavíkurflugvelli og öðrum alþjóðlegum flugvöllum. Flugverndin felst í fyrirbyggjandi aðgerðum til að koma í veg fyrir ólögmætar uppákomur sem geta beinst gegn öryggi flugsamgangna. Sagði Þorgeir standa til um næstu áramót að taka upp gegnumlýsingu á öllum farangri sem fer í lestarrými í flugvélum í millilandaflugi. "Hver einasta taska fer þá í gegn um grandskoðun og sömuleiðis allur flutningur," sagði hann.

Myndi gilda fyrir allar vélar sem flytja fleiri en 19 farþega

Hingað til hafa minni varúðarráðstafanir verið viðhafðar hvað þetta varðar í innanlandsflugi en að sögn Þorgeirs getur það breyst. "Samkvæmt drögum að reglugerð Evrópusambandsins sem er núna í meðhöndlun á Evrópuþingi er þetta það sem koma skal líka fyrir innanlandsflugið, þ.e.a.s. á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Þetta mun gilda fyrir allar vélar sem eru yfir 10 tonn eða flytja fleiri en 19 farþega. Auðvitað er ekki auðvelt að koma þessu við. Þetta kostar gríðarlega fjármuni og það er ljóst að ef þarf að taka þetta upp hér á landi í óbreyttu formi yrði þetta feiknalega dýrt."

Í Morgunblaðinu í gær kom fram að flugfélög í innanlandsflugi hafa tapað 1,7 milljörðum króna á síðustu fjórum árum. Hins vegar kom ekki fram í máli Þorgeirs hver myndi bera þennan kostnaðarauka, flugfélög, farþegar eða stjórnvöld.

Gætum fengið sérskilmála

Sagði Þorgeir menn hins vegar gera sér vonir um að hægt yrði að semja um aðra skilmála fyrir Ísland. "Við erum langt í burtu frá öðrum löndum og vélar í innanlandsflugi hérna komast yfirleitt ekki til annarra landa því þær eru ekki með nægilegt eldsneyti til þess. Okkar innanlandskerfi er auðvitað alveg aðskilið, bæði landfræðilega og á annan hátt þannig að það fer ekkert á milli hvorki farþegar né farangur. Þannig að það eiga að vera forsendur til þess að við getum fengið svolítið aðra skilmála fyrir innanlandsflugið en hverjir þeir verða er ekki ljóst á þessari stundu," sagði hann.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert