„Jafn gaman að sparka í þá eins og aðra“

Sindri Snær Magnússon var í ÍBV treyjunni fyrir stuttu síðan.
Sindri Snær Magnússon var í ÍBV treyjunni fyrir stuttu síðan. mbl.is/Sigfús

Sindri Snær Magnússon var traustur á miðjunni hjá ÍA í dag í sigrinum á ÍBV í Pepsí Max-deildinni í knattspyrnu. Hann var í sérkennilegri stöðu því hann var fyrirliði ÍBV fyrr í sumar en hafði nýlega félagaskipti yfir í ÍA. 

„Þetta var bara gaman. Við fengum þrjú stig á heimavelli eins og við ætluðum okkur. Ég spilaði á móti fullt af vinum mínum í dag og það er alveg jafn gaman að sparka í þá eins og aðra. Já það er mjög stutt síðan ég skipti yfir en fyrir mig var þetta jafn skemmtilegt og aðrir leikir. Það er alltaf jafn gamna að vinna leiki, saman á móti hverjum það er.“

Sindri var ánægður með frammistöðu Skagaliðsins.

„Við gerðum það sem við þurftum að gera og rúmlega það. Við fengum fullt af færum til að skora meira. Þar á meðal ég. Við gerðum ein klaufaleg mistök í leiknum þegar við skullum saman þegar við vorum 2:1 yfir. Það var eiginlega það eina hættulega sem kom upp. Annars fannst mér þetta vera mjög sanngjarnt. Þetta var kærkominn sigur fyrir okkur og við lyftum okkur aðeins upp töfluna fyrir vikið. Við erum bara rétt að byrja,“ sagði Sindri Snær í samtali við mbl.is en hann átti talsverðan þátt í öðru marki ÍA. 

Sigurinn var sætur fyrir Sindra sem var í tapliði í öllum leikjum sem hann lék með ÍBV í sumar og í fyrstu tveimur leikjum sínum með Skagamönnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert