Blikar á toppinn

Það var hart barist á Kópavogsvelli í kvöld.
Það var hart barist á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Breiðablik tyllti sér á toppinn og hefur ekki enn fengið á sig mark eftir 3:0-sigur á FH í 3. umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld.

Breiðablik er með fullt hús stiga, níu, með markatöluna 9:0 eftir að hafa unnið alla leiki sína til þessa 3:0. FH er áfram í sjöunda sæti með þrjú stig.

Blikar hófu leikinn af krafti og fékk Agla María Albertsdóttir fyrsta góða færi leiksins á áttundu mínútu. Boltinn barst þá til hennar vinstra megin í markteignum eftir þunga sókn, hún náði skotinu en það fór framhjá nærstönginni.

Fimm mínútum síðar fengu Blikar tvöfalt færi í kjölfar hornspyrnu. Fyrst átti Karitas Tómasdóttir þrumuskot hægra megin úr vítateignum sem Aldís Guðlaugsdóttir í marki FH varði.

Boltinn barst til Andreu Rutar Bjarnadóttur sem skaut af svipuðu færi, boltinn stefndi í markið en Jónína Linnet var í markteignum og náði að hreinsa frá.

Eftir erfiða byrjun vöknuðu FH-ingar af værum blundi og fengu besta færi leiksins á þeim tímapunkti, á 19. mínútu.

Elísa Lana Sigurjónsdóttir sendi Breukelen Woodard í gegn, Ásta Eir Árnadóttir fylgdi henni eftir en undir pressu náði Woodard skoti úr vítateignum, það fór beint á Anítu Dögg Guðmundsdóttur sem varði mark Breiðabliks í fjarveru Telmu Ívarsdóttur, sem er nefbrotin, og þaðan í hornspyrnu.

Um miðjan síðari hálfleik átti Elísa Lana frábæra tilraun fyrir utan vítateig hægra megin. Fast skot hennar eftir jörðinni hafnaði í fjærstönginni, fór þaðan í bakið á Anítu Dögg áður en Elín Helena Karlsdóttir hreinsaði aftur fyrir.

Slysalegt fyrsta mark

Eftir þetta áhlaup róaðist leikurinn töluvert. Fyrsta mark leiksins kom svo upp úr þurru á 35. mínútu.

Andrea Rut komst þá inn í sendingu Valgerðar Óskar Valsdóttur við vítateig FH, náði til boltans hægra megin við endalínuna, Aldís rauk út í Andreu Rut sem kom boltanum framhjá henni og á Birtu Georgsdóttur sem reyndi skot.

Það fór í Örnu Eiríksdóttur, FH-ingum mistókst að hreinsa frá í kjölfarið og Birta náði að pota boltanum í autt netið úr markteginum, 1:0.

Undir lok hálfleiks fékk Birta tækifæri til þess að skora sitt annað mark. Barbára Sól Gísladóttir, sem hafði ógnað nokkrum sinnum með sköllum eftir hornspyrnur, átti frábæran sprett upp hægri kantinn, gaf fyrir á Birtu sem náði skallanum en Aldís gerði vel í að verja hann.

Blikar voru því einu marki yfir í leikhléi eftir fjörugan fyrri hálfleik.

Í síðari hálfleik voru heimakonur sterkari aðilinn og hófu að ógna marki FH í sífellu eftir um klukkutíma leik.

Vigdís Lilja átti hörkuskot vinstra megin úr vítateignum sem hafnaði í utanverðri nærstönginni á 57. mínútu.

Tveimur mínútum síðar átti hún laglega fyrirgjöf frá hægri yfir á Öglu Maríu, sem skallaði boltann þvert fyrir markið á Birtu sem á einhvern ótrúlegan hátt skaut yfir markið nánast á marklínunni, þó Arna hafi sett smá pressu á hana.

Vigdís Lilja næstmarkahæst

Tveimur mínútum eftir það, á 61. mínútu, kom svo annað markið. Andrea Rut átti þá góða sendingu á Vigdísi Lilju sem var með mikið pláss vinstra megin, lék með boltann inn í vítateig, lagði boltann fyrir sig á hægri fótinn og tók Örnu um leið úr leik og þrumaði boltanum niður í fjærhornið, 2:0.

Eftir þessa orrahríð að marki FH róaðist leikurinn töluvert. FH-ingar reyndu að skapa sér færi með það að markmið að minnka muninn en höfðu ekki erindi sem erfiði gegn sterkri vörn Blika.

Átta mínútum fyrir leikslok fékk Karitas Tómasdóttir kjörið tækifæri til þess að skora þriðja mark Blika þegar hún fékk frían skalla eftir hornspyrnu Áslaugar Mundu Gunnlaugsdóttur frá hægri en Aldís varði glæsilega.

Skömmu síðar var varamaðurinn Helena Óska Hálfdánardóttir nálægt því að minnka muninn fyrir FH þegar Aníta Dögg þrumaði boltanum í andlitið á henni og boltinn fór rétt framhjá markinu.

Þremur mínútum fyrir leikslok skoraði Vigdís Lilja svo annað mark sitt og þriðja mark Breiðabliks.

Aldís átti þá misheppnaða sendingu fram, varamaðurinn Margrét Lea Gísladóttir komst inn í hana og kom boltanum á Vigdísi Lilju hægra megin í vítateignum. Hún renndi boltanum með hnitmiðuðu vinstri fótar skoti niður í bláhornið fjær og staðan orðin 3:0, sem reyndust lokatölur.

Vigdís Lilja hefur nú skorað fimm mörk í fyrstu þremur leikjunum og er næstmarkahæst í deildinni.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Breiðablik 3:0 FH opna loka
90. mín. +3 Andrea Marý sest niður og líður eitthvað illa. Þetta virðist hreinlega alvarlegt, hún er lögð varlega niður og beðið er eftir sjúkrabíl auk þess sem sjúkrabörur eru komnar inn á völlinn. Vonum að þetta sé ekki alvarlegt eins og útlit er fyrir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert