Eins og við værum með reipi um mittið

Magnús Arnar Pétursson, ungur miðjumaður HK, leikur á Ægi Jarl …
Magnús Arnar Pétursson, ungur miðjumaður HK, leikur á Ægi Jarl Jónasson úr KR. mbl.is/Óttar Geirsson

„Þetta er annað HK-lið en við sýndum í fyrstu þremur umferðunum," sagði Arnþór Ari Atlason, miðjumaðurinn reyndi hjá HK, eftir óvæntan sigur Kópavogsliðsins á KR í Vesturbænum, 2:1, í sjöttu umferð Bestu deildar karla í fótbolta í dag.

„Við erum búnir að finna taktinn, mér fannst við spila í fyrstu þremur leikjunum eins og við værum allir með reipi bundið um mittið. Vorum ragir í öllu og okkur vantaði sjálfstraustið. Við spiluðum eins og við ættum ekkert erindi í þessa deild.

En svo settumst við niður og ræddum málin, ákváðum að sleppa aðeins af okkur beislinu og spila af krafti og þori, pressa dálítið á liðin, og það er búið að skila sér í tveimur sigrum í röð. Nú er bara að byggja ofan á það," sagði Arnþór við mbl.is eftir leikinn.

Já, og það var kannski ekki sjáanlegt í spilunum að þið mynduð sækja sex stig í tveimur leikjum gegn Víkingi og KR?

Ómar Ingi Guðmundsson og Arnþór Ari Atlason fara yfir málin.
Ómar Ingi Guðmundsson og Arnþór Ari Atlason fara yfir málin. Ljósmynd/Sigfús Gunnar


„Nei, alls ekki. Fyrirfram myndi fólk í það minnsta ekki halda það. En við erum með mjög gott lið, reynslumikla leikmenn í grunnstöðum, menn sem hafa spilað fullt af leikjum í meistaraflokki og í efstu deild, og svo erum við með unga og uppalda HK-inga sem eru að koma mjög sterkir inn.

Við vitum hvað býr í liðinu, það skiptir máli að spila af þori og vera ekki ragir, þá kemur sjálfstraust og þá koma sigrarnir líka," sagði Arnþór Ari sem skoraði seinna mark HK í leiknum.

Full mikið stress í lokin

Það hefur væntanlega verið dýrmætt að ná forystunni seint í fyrri hálfleiknum?

„Já, alveg gríðarlega. Þetta var jafn leikur og KR er gott lið sem er erfitt að spila við hérna á útivellinum. Það þekkjum við bara í gegnum tíðina. Það var mikilvægt að ná þessu fyrsta marki, og hvað þá öðru markinu líka. Þeir náðu síðan að setja full mikið á okkur eftir að við urðum manni fleiri, en svo áttum við að gera út um leikinn endanlega með öllum færunum sem við fengum.

Við fengum nokkur dauðafæri þegar við vorum orðnir ellefu gegn níu og þar sem við nýttum þau ekki var þetta full mikið stress í lokin. En það sem skipti öllu máli var að við náðum að klára þetta," sagði Arnþór.

Nú eruð þið skyndilega komnir með 7 stig, það hlýtur að breyta ansi miklu.

„Já, algjörlega og það gefur okkur heilmikið að vera komnir með þessi stig. Við vitum samt sem áður að sjö stig eru langt frá því að vera nóg og við megum ekki slaka á núna. Þetta á frekar að gefa okkur kraft í að sækja enn fleiri stig og sýna að við getum unnið hvaða lið sem er. Næst eru að Valsmenn og við ætlum að vinna þá," sagði Arnþór Ari Atlason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert