Dómarinn með myndavél í kvöld

Jared Gillet verður með meiri búnað en Tim Robinson er …
Jared Gillet verður með meiri búnað en Tim Robinson er með á þessari mynd. AFP/Henry Nicholls

Tímamót verða í ensku úrvalsdeildinní í kvöld þegar Crystal Palace tekur á móti Manchester United á Selhurst Park í London.

Dómari leiksins, Jarred Gillet, verður fyrstur til að bera „dómaramyndavél“ í deildinni, en með henni verður hægt að sjá atvikin frá hans sjónarhorni og samskipti hans við leikmenn á meðan leikurinn stendur yfir.

Upptakan verður þó ekki aðgengileg í beinni útsendingu og ekki stendur til að gera þetta á fleiri leikjum í bili en með þessu á að varpa betra ljósi á starf dómara í deildinni.

Þetta var gert í Þýskalandi í febrúar þegar Daniel Schlager dómari var með myndavél og hljóðnema í leik Eintracht Frankfurt og Wolfsburg.

Þá var dómarinn Rob Jones með slíkan búnað þegar Chelsea og Brighton mættust á undirbúningsmóti í Bandaríkjunum síðasta sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert