Íslenskur ökumaður fer frá einu meistaraliði til annars

Kristján Einar er í góðum málum verði hann ökuþór hjá …
Kristján Einar er í góðum málum verði hann ökuþór hjá Newman Wachs Racing.

„Við ætluðum að reyna að halda þessu leyndu þar til búið væri að loka málinu en það var kannski fullmikil bjartsýni í ljósi þess um hvaða lið er að ræða,“ segir Kristján Einar Kristjánsson kappakstursmaður. Honum stendur til boða að keppa með stórliðinu Newman Wachs Racing í Bandaríkjunum á næsta ári sem er skref fram á við úr hinni bresku formúlu-3 sem hann keppti í á árinu sem er að kveðja.

Kristján Einar braut blað í sögu íslenskra akstursíþrótta 2008 þegar hann stökk nánast beint úr karti á ráslínuna í formúlu-3 og keppti fyrir enska meistaraliðið Carlin. Hann fékk að spreyta sig á dögunum við æfingar hjá Newman Wachs Racing sem er m.a. kennt við eiganda sinn, leikarann Paul Newman. Var Kristján Einar einn fimm ökumanna af rúmlega 30 sem leikarinn Paul Newman valdi til prófana skömmu áður en hann lést.

Góðar prófanir

Prófanirnar fóru fram á Sebring-brautinni í Flórída í desemberbyrjun og þar gekk einfaldlega allt upp, svo notuð séu orð Brian Halahan, liðsstjóra Newman Wachs. Don Halliday, tæknistjóri með áratuga reynslu úr formúlu-1, Indy Racing League og bandarísku ChampCar-mótaröðinni, stjórnaði prófunum Kristjáns Einars.

Halliday hefur m.a. unnið með heimsþekkta ökumenn á borð við Nelson Piquet, Sebastian Bourdais, Danicu Patrick og Kenny Brack.

„Þetta voru góðar prófanir og allt eins og best verður á kosið hjá liðinu, bæði starfsfólk og aðstaða. Að fá að vinna með manni eins og Halliday er upplifun út af fyrir sig og ég lærði gríðarlega mikið af honum. Bíllinn kom mér líka á óvart, ég vissi að hann væri 100 hestöflum kraftmeiri en formúlu-3 bíllinn, en átti samt ekki von á að loftflæðið væri svona rosalegt. En ég missti hann aldrei út úr brautinni og eftir því sem leið á prófanirnar fann ég hvað hann passar mér vel,“ segir Kristján Einar.

Má segja að Kristján Einar fari frá einu stórliðinu til annars því Carlin-liðið hefur verið öflugasta lið formúlu-3 í Bretlandi um árabil, en þar hlutu m.a. skólun Kimi Räikkönen, Sebastian Vettel og Robert Kubica, svo einhverjir séu nefndir.

„Það er hvað ævintýralegast eftir þessi próf að vera kominn í þá ótrúlegu aðstöðu að geta farið frá einu meistaraliði til annars. Maður lærir fljótt í kappakstri að það er stór munur frá einu liði til annars. Og topplið, hvað starfsfólk, aðstöðu og stjórnendur varðar, vilja fá launin sín í stolti yfir frammistöðu ökumannanna, ekki bara í peningum. Newman Wachs og Carlin Motorsport eru vissulega svona lið. Veru minni hjá því síðarnefnda get ég þakkað að vera á leið til Newman Wachs til að takast á við 300 hestafla keppnisbíl á öðru ári í kappakstri,“ segir Kristján Einar.

Hann stóð sig vel í formúlu-3 framan af en ólán elti, bilanir og árekstrar, á seinni hluta tímabilsins. Hann var um skeið fjórði í stigakeppninni í landsflokki og komst m.a. á verðlaunapall í Monza-brautinni á Ítalíu.

Í hnotskurn
» Unnið er að því að fjármagna þátttöku Kristjáns Einars og gangi það upp, keppir hann að öllum líkindum fyrir Newman Wachs í bandarísku Atlantic-mótaröðinni svonefndu. Hefst hún í Savannah í Georgíu 15. mars og lýkur 11 mótshelgum seinna.
Don Halliday var ánægður með frammistöðu Kristjáns Einars hjá Newman …
Don Halliday var ánægður með frammistöðu Kristjáns Einars hjá Newman Wachs.
Kristján Einar mátar sig í keppnisbíl Newman Wachs í Flórída.
Kristján Einar mátar sig í keppnisbíl Newman Wachs í Flórída.
Paul Newman mættur til leiks einu sinni sem oftar. Hann …
Paul Newman mættur til leiks einu sinni sem oftar. Hann valdi Kristján Einar til prófana hjá liði sínu.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert