Minnti okkur á að við erum ekki óstöðvandi

Steinunn Björnsdóttir brunar í gegnum vörn Hauka í leik í …
Steinunn Björnsdóttir brunar í gegnum vörn Hauka í leik í vetur. mbl.is/Golli

„Við fáum núna bikarinn til að hugsa um á meðan deildin skiptir ekki máli þessa dagana,“ sagði Steinunn Björnsdóttir, leikmaður Fram, í samtali við mbl.is í aðdraganda undanúrslitaleiks Coca Cola-bikarsins í handknattleik gegn Haukum sem fram fer síðar í dag.

„Stemningin er gríðarlega góð og við förum að keyra hana enn frekar í gang. Við spiluðum síðast á sunnudaginn og þurftum að klára það verkefni áður en við snerum okkur að þessu,“ sagði Steinunn og áréttar að það sé ekkert mál að undirbúa sig fyrir svona stórleik.

„Það væri svolítið skrítið ef það væri erfitt að gíra sig upp í svona „Final Four“, þetta er ótrúlega skemmtilegt og nokkuð langt síðan við vorum þarna síðast. Við ættum að vera hungraðar í þetta, margir leikmenn hjá okkur hafa farið þarna oft og unnið titilinn svo við hjálpumst vel að í undirbúningnum.“

Fram er á toppi Olís-deildarinnar og var óstöðvandi fyrir áramót. Á dögunum tapaði liðið þó tveimur leikjum í röð, sínum fyrstu í vetur, en heldur Steinunn að það gæti haft áhrif á leikinn í dag að liðið hafi farið að hiksta?

Besta tímasetningin til að fá spark í rassinn

„Nei, ég vona ekki. Við virðumst vera komnar á ágætt skrið aftur núna og unnum Gróttu mjög sannfærandi á sunnudaginn. En að sjálfsögðu er maður með það í huga að við erum ekki óstöðvandi, en það kom ekki á óvart að við skyldum tapa leik. Við megum bara ekki láta það hafa áhrif á okkur heldur halda okkur áfram á beinu brautinni,“ sagði Steinunn.

Var þetta kannski bara góð tímasetning til þess að tapa, ef svo má segja, og gefur ykkur færi á að rífa ykkur aftur upp á réttum tímapunkti?

„Já, ætli þetta hafi ekki verið besta tímasetningin til þess að fá smá spark í rassinn og minna okkur á að við erum ekki óstöðvandi. En við vissum að við færum aldrei í gegnum deildina án þess að tapa,“ sagði Steinunn, en Fram tapaði meðal annars fyrir Haukum.

Vita Framkonur þá öll leyndarmál Hauka?

„Það er vissulega þægilegt að vera nýbúnar að spila við þær. En við gerðum mjög illa á móti þeim síðast og þurfum klárlega að læra fyrst og fremst af mistökunum og fara yfir hvað við getum gert betur í okkar leik. Við vorum mjög ólíkar sjálfum okkur í þeim leik og við þurfum að finna taktinn aftur,“ sagði Steinunn Björnsdóttir við mbl.is.

Leikur Hauka og Fram hefst klukkan 19.30 í kvöld og verður í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert