Það verður enginn eftir á Selfossi

Lið Selfoss mætir Stjörnunni, ríkjandi meisturum.
Lið Selfoss mætir Stjörnunni, ríkjandi meisturum. mbl.is/Golli

„Þetta er svakalega skemmtilegt og spennandi fyrir okkur,“ sagði Margrét Katrín Jónsdóttir, leikmaður Selfoss, í samtali við mbl.is í aðdraganda undanúrslitaleiks Coca Cola-bikarsins í handknattleik gegn Stjörnunni sem fram fer síðar í dag.

Selfoss er í fyrsta sinn í undanúrslitarimmu bikarsins sem fram fer með svokölluðu „Final Four“ fyrirkomulagi í Laugardalshöllinni og segir Margrét svona stund gera mikið fyrir liðið.

„Já, alveg klárlega. Hlutirnir hafa ekki alveg fallið okkar megin í vetur, við höfum oft tapað með einu eða tveimur mörkum. Svo við erum alveg tilbúnar til þess að leggja allt í þetta,“ sagði Margrét.

Stjarnan er ríkjandi meistari, en telur Margrét það gefa liði Selfoss aukinn vilja til þess að sýna sig og sanna í Höllinni?

„Já, á vissan hátt, en mér finnst öll liðin vera svo jöfn að þetta getur alltaf dottið hvoru megin sem er. Það sem mun skera úr um þetta er barátta og vilji, hvort liðið mætir betur til leiks,“ sagði Margrét og reiknar að sjálfsögðu með því að Selfyssingar muni fjölmenna á leikinn og styðja við bakið á liðinu.

„Jú, ég held að það verði bara enginn eftir á Selfossi. Það er alltaf gaman að hafa bakland í stúkunni og við viljum hvetja alla til þess að mæta,“ sagði Margrét Katrín Jónsdóttir við mbl.is.

Leikur Stjörnunnar og Selfoss hefst klukkan 17.15 í dag og verður í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Margrét Katrín Jónsdóttir.
Margrét Katrín Jónsdóttir. Ljósmynd/Selfoss
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert